9.5.2025 10:15

Öngstræti þéttingarstefnunnar

Segja má að það sé tímabært, nú þegar um eitt ár er til næstu borgarstjórnarkosninga og fylgi Framsóknarflokksins hefur hrunið á kjörtímabilinu, að borgarfulltrúi hans horfist í augu við stöðuna eins og hún er.

Eftir þriggja ára setu í umhverfis- og skipulagsráði fyrir Framsóknarflokkinn hefur borgarfulltrúinn Aðalsteinn H. Sverrisson komist að þeirri niðurstöðu að þétting byggðar í Reykjavík gagnist borgarbúum ekki. Stefna Samfylkingarinnar undanfarin 15 ár um að þétta byggð og búa í haginn fyrir borgarlínu hafi leitt til fjölda vandamála. Í grein Aðalsteins í Morgunblaðinu í dag (9. maí) segir hann að ekki sé lengur unnt að horfa fram hjá þessum vandamálum.

Í stuttu máli er það skoðun Aðalsteins að ofuráhersla á að þétta byggð hafi leitt til ósjálfbærs húsnæðiskostnaðar, slakrar nýtingar á rými, vanfjármagnaðra innviða, meiri umferðarvanda og vaxandi óánægju borgarbúa.

Þá segir hann að undir merkjum þéttingarstefnunnar hafi verið haldið í innviði í borginni, allt frá skolplögnum til skóla og samgöngukerfa, sem séu „fyrir löngu orðnir úreltir og sprungnir“. Þetta birtist í leik- og grunnskólum sem þurfi að endurbyggja frá grunni vegna mygluvanda. „Vaxandi umferðarteppa á helstu stofnæðum borgarinnar á háannatíma er annað augljóst merki um innviðakerfi sem ræður ekki við álagið,“ segir Aðalsteinn.

Framsóknarflokkurinn lagði þessari stefnu lið frá sumarbyrjun 2022 þar til í febrúar í ár og fékk meðal annars borgarstjórastólinn í sinn hlut í fyrsta sinn í 100 ára sögu flokksins út á stuðning við hana.

Segja má að það sé tímabært, nú þegar um eitt ár er til næstu borgarstjórnarkosninga og fylgi Framsóknarflokksins hefur hrunið á kjörtímabilinu, að borgarfulltrúi hans horfist í augu við stöðuna eins og hún er.

9E3D3014F1372ABE4616EC2B739345234528EFDDE0C4E77AE0FA4779D3BE5EB5_713x0Rauðu húsin sýna fyrirhugað skólaþorp skammt frá Laugardalsvellinum. Vegna þess hverfa um 260 bílastæði við völlinn, innkeyrsla hverfur til að bæta upp fækkunina.

Til þessa hefur flokkurinn þagað þunnu hljóði. Nú minnir Aðalsteinn á að eitt helsta loforð þéttingarstefnunnar í borginni hafi verið „að hægt yrði að byggja ódýrari íbúðir þar sem innviðir væru þegar fyrir hendi“. Hann segir réttilega að þetta loforð hafi ekki staðist. Þvert á móti hafi lóðaverð í grónum hverfum rokið upp, sem og byggingarkostnaður. Þessi þróun komi sérstaklega illa niður á ungu fólki sem vilji kaupa sitt fyrsta húsnæði og stofna fjölskyldu.

Þéttingarstefnan hafi leitt til skuggavarps, skerts útsýnis og takmarkaðs aðgengis að grænum svæðum. Tóm verslunarrými á jarðhæð fjölbýlishúsa séu ekki aðeins sjónmengun, heldur sóun á dýrmætu rými. Bílastæðum hafi verið vísvitandi fækkað, þrátt fyrir að 70% borgarbúa noti einkabíl til daglegra ferða.

Hér verður ekki vitnað meira í þessa fróðlegu grein sem staðfestir gagnrýni sem fram hefur komið á þá stefnu sem Samfylkingin mótaði á sínum tíma í borginni og fylgisfiskar hennar hafa stutt möglunarlaust undanfarin ár.

Á framkvæmd þessarar stefnu verður litið sem langvinnt skipulagsslys þegar fram líða stundir. Þeir sem hlupu í skarð framsóknar í meirihlutanum fyrr á árinu vinna þó áfram í þessum anda. Nú vilja þeir til dæmis troða byggð á bensínreit við Birkimel í óþökk stjórnenda Háskóla Íslands.

Bílastæði á þessum reit eru nú orðin að flóttastæðum fyrir þá sem búa við ofurþunga bílastæðagjalda norðan Hringbrautar. Þá stendur til að fækka bílastæðum við Laugardalsvöllinn um tæplega 260 vegna skólaþorps og afnema innkeyrslu til að bæta upp fækkunina. Stríðið við einkabílinn er eitt af höfuðmarkmiðum þéttingarstefnunnar, bílunum fækkar þó ekki heldur fólkinu sem vill ekki fjárfesta í bílastæðalausum íbúðahverfum.