8.2.2019 8:31

Ólögmætt kosningafikt úr ráðhúsinu

Af þessu má sjá að meira að segja að því er varðar kosningar fer Reykjavíkurborg út fyrir ramma laga og réttar undir forystu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

Nú liggur fyrir að Persónuvernd taldi að eigin frumkvæði ástæðu til að rannsaka framgöngu af hálfu stjórnenda Reykjavíkurborgar í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna undir lok maí 2018. Niðurstaða rannsóknarinnar var birt 31. janúar 2019: Reykjavíkurborg, rannsakendur við Háskóla Íslands og Þjóðskrá brutu persónuverndarlög. Þá átelur Persónuvernd borgina fyrir að hafa ekki veitt stofnuninni upplýsingar um alla þætti málsins þrátt fyrir óskir um það.

Þetta er óvenjulegt mál að því leyti að það snertir tilraun til að hafa áhrif á kjósendur skömmu fyrir kosningar. Vegið er að persónuvernd ungs fólks annars vegar og kvenna eldri en 80 ára auk erlendra ríkisborgara.

69873986

Reykjavíkurborg leitaði álits Persónuverndar áður en til þessa leiks var gengið en upplýsti stofnunina aðeins um hluta verkefnisins auk þess sem ítrekaðs ósamræmis gætti í svörum borgarinnar til Persónuverndar.

Í niðurstöðu stofnunarinnar segir að ekki hafi komið fram fullnægjandi skýringar á því hvers vegna hún hafi ekki fengið allar upplýsingar sem óskað var eftir sérstaklega. Það sé alvarlegt og ámælisvert að ábyrgðaraðili, sem vinni með persónuupplýsingar og sé auk þess stærsta sveitarfélag landsins, skuli láta undir höfuð leggjast að svara fyrirspurnum eftirlitsvalds.

Persónuvernd segir að texti sms-skilaboða borgarinnar til ungs fólks hafi verið gildishlaðin. Texti í bréfum, þar sem rætt var um skyldu til að kjósa, hafi hann verið rangur. Hvergi sé minnst á kosningaskyldu í íslenskum lögum. Þá segir Persónuvernd að bæði smáskilaboðin og bréfin hafi verið til þess fallin að hafa áhrif á hegðun unga fólksins í kosningunum.

Persónuvernd segir að bréfin sem voru send til kvenna 80 ára og eldri og erlendra ríkisborgara hafi ekki einungis verið til upplýsinga og fræðslu heldur hafi þau einnig verið hvatning til að kjósa. Persónuvernd telur engin rök standa til þess að upplýsa þurfi konur á þessum aldri um kosningarétt þeirra. Þá geti það ekki samrýmst kröfum að opinberir aðilar sendi tilteknum hópum kjósenda hvatningu um að nýta kosningarétt sinn í aðdraganda kosninga.

Af þessu má sjá að meira að segja að því er varðar kosningar fer Reykjavíkurborg út fyrir ramma laga og réttar undir forystu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

Það er sama hvar drepið er niður af hálfu eftirlitsaðila með stjórnsýslu Reykjavíkurborgar, alls staðar er um lögbrot eða annars konar ámælisverða hluti að ræða. Að misnota aðstöðu sína til að hafa áhrif á kjósendur á lokadögum kosningabaráttu sýnir að valdhöfum í ráðhúsinu er ekkert heilagt.