9.4.2020 10:38

Ólíkar kveðjur tveggja sendiherra

Það er sannarlega annar tónn í þessum viðvörunum kínverska sendiráðsins en í vinsamlegu þakkarbréfi bandaríska sendiherrans til íslensku þjóðarinnar.

Kínverska sendiráðið sendi ritstjórn Morgunblaðsins athugasemd 31. mars vegna skoðana í leiðara blaðsins föstudaginn 27. mars um ábyrgð kínverskra yfirvalda á útbreiðslu kórónuveirunnar. Yfirlýsingu sendiráðsins lauk á þessum orðum:

„Við vonum innilega að Morgunblaðinu auðnist að verða víðsýnna, virða staðreyndir og láta af ómaklegum árásum á Kína.“

Morgunblaðið vakti þessa reiði sendiráðs Kína í Reykjavík með því að endurtaka í leiðara sínum það sem margoft hafði birst í öðrum vestrænum miðlum. Efni yfirlýsingarinnar er forvitnilegt í ljósi þess sem gerst hefur eftir að hún birtist. Hér skal tvennt nefnt:

  1. Sendiráðið vitnar í Dr. Tedros Adhanom Ghebreysus, framkvæmdastjóra WHO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, kínverskum stjórnvöldum til varnar. Hann hefði sagt að „hinar skjótu og umfangsmiklu aðgerðir sem Kína hefði gripið til væru án fordæma á heimsvísu.“ Nú beinist gagnrýni að WHO fyrir að ganga erinda kínverskra stjórnvalda, meðal annars vegna undarlegrar framkomu aðstoðarframkvæmdastjóra WHO gagnvart Tævönum sem tókst bægja faraldrinum að mestu frá sér með markvissum aðgerðum. Í Peking er litið á það sem drottinssvik að nefna Tævan sem sjálfstætt ríki.
  2. Þá segir sendiráðið: „Kína er ekki Sovétríkin sálugu, Kínverski kommúnistaflokkurinn er ekki Sovéski kommúnistaflokkurinn. Síðan Kínverski kommúnistaflokkurinn var stofnaður 1921 hefur flokkurinn leitt kínverska alþýðu til áður óþekkts sjálfstæðis og frelsis, auk þess að stuðla að sterkum efnahag og síauknum styrk þjóðarinnar og nýtur Kínverski kommúnistaflokkurinn óskoraðs stuðnings alls 1,4 milljarða landsmanna. [...] Undir styrkri stjórn Kínverska kommúnistaflokksins hefur ríkisstjórn Kína gripið til umfangsmestu, ströngustu og áhrifaríkustu aðgerða sem völ var á til að berjast við faraldurinn og hefur sett líf og heilsu almennings í fyrsta sæti . Hafa þessar aðgerðir ýtt undir þjóðarstolt allrar þjóðarinnar.“

Það sem segir hér undir (2) sýnir að kínverskum embættismönnum ber að hampa kommúnistaflokknum og forystu hans þegar þeir ræða jákvæða þætti átakanna á heimavelli við COVID-19. Baráttan á heimavelli í Kína er ekki aðeins við faraldurinn heldur einnig við alla sem telja að illa hafi verið á málum haldið. Yfirlýsing sendiráðsins sýnir að þetta gildir ekki aðeins í Kína heldur einnig gagnvart leiðarahöfundi Morgunblaðsins og blaðinu sjálfu.

IMG_1094Það er sannarlega annar tónn í þessum viðvörunum kínverska sendiráðsins og kröfum um þöggun en í vinsamlegu þakkarbréfi til íslensku þjóðarinnar frá Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, sem birtist í Morgunblaðinu í dag (9. apríl) og lýkur á þessum orðum:

„Bandaríkin eru reiðubúin að rétta Íslendingum hjálparhönd. Á næstu vikum munum við leita leiða til að styðja við frábærar heilbrigðisstofnanir ykkar og starfsfólk. Bandaríkin og Ísland eru bundin órjúfanlegum böndum. Sameiginleg saga okkar og gildi munu sameina okkur og styðja um ókomna tíð.

Það er ljóst að erfiðir tímar eru framundan. Um leið og ég bið fyrir Íslandi og Bandaríkjunum er ég fullviss um að við náum árangri með sameiginlegu átaki og sameiginlegum gildum frelsis og gagnsæis. Við hjálpumst að, eins og við höfum alltaf gert, styðjum hvert annað, eins og við höfum alltaf gert, og fögnum sigri saman, eins og við höfum alltaf gert. Guð blessi ykkur öll.“