10.10.2020 11:30

Ólík viðhorf og COVID-19

Að ætla að nota faraldurinn til gera þá tortryggilega sem viðra önnur sjónarmið en þau sem talin eru „pólitískt korrekt“ er skaðlegt.

Fyrir nokkrum dögum birtist hér á síðunni útdráttur úr yfirlýsingu þar sem hvatt er til annarra leiða í baráttunni við COVID-19-faraldurinn en almennt er fylgt hér og annars staðar. Þetta var ekki gert til að veikja varnirnar sem gripið er til hér á landi heldur til að minna á ólík sjónarmið.

Hættan af sjúkdómnum er mikil fyrir heilsu okkar. Faraldurinn hefur áhrif á daglegt líf og afkomu og hann verður að ræða í því ljósi. Að ætla að nota hann til gera þá tortryggilega sem viðra önnur sjónarmið en þau sem talin eru „pólitískt korrekt“ er skaðlegt.

Flestir þeirra sem hafa dáið í Svíþjóð vegna COVID-19-faraldursins bjuggu á hjúkrunarheimilum eða nutu umönnunar heima hjá sér að því er segir í gögnum sænskra heilbrigðisyfirvalda. Í þessu ljósi þrengdu sóttvarnayfirvöld ferðafrelsi eldri borgara og takmörkuðu rétt annarra til að hafa samband við þá.

Nú telur Anders Tegnell, yfirlæknir sænskra sóttvarna, að íþyngjandi áhrif á gamalt fólk hafi líklega verið of mikil. Hann segir í samtali við sænska ríkissjónvarpið, SVT, að menn geti vel hitt aðra án þess að kalla yfir sig hættu, sé fjarlægðin á milli manna nógu mikil. Heimsóknarbann á sænsk hjúkrunarheimili var sett 1. apríl en afnumið 1. október. Tegnell segir að nú sé markvisst unnið að mótun reglna sem tryggi að eldri borgarar geti átt meiri samskipti við vini og vandamenn.

Åke Nilsson, eftirlaunaþegi, fyrrum yfirmaður lýðfræðiskráningar í Svíþjóð, sagði nýlega við norsku fréttastofuna NTB, að árum saman hefðu eldri borgarar í Svíþjóð staðið illa að vígi gagnvart smitsjúkdómum, varnir þeirra hefðu verið litlar. Hann bar saman dánartíðni í tveimur gömlum inflúensufaröldrum í Svíþjóð við það sem gerst hefur núna og segir að þá hefðu orðið 5.500 og 6.000 dauðsföll meðal eldri borgara.

Til þessa hafa um 100.000 smitast í Svíþjóð og um 6.000 eru skráðir látnir vegna veirunnar. Til samanburðar má nefna að 15.221 hafa smitast í Noregi og 275 skráðir látnir.

Hér eru birtar tvær myndir sem skýra sig sjálfar en skoða má með vísan til þess sem þeir segja sem standa fyrir Great Barrington yfirlýsingunni:


Image0Image1

Súluritin eru af vef worldometers.info. Efra súluritið sýnir þróun fjölda smita í Bretlandi og neðra fjölda látinna þar í landi af völdum veirunnar. Súlurit með sömu upplýsingum frá Frakklandi sýna hliðstæða þróun. Ljóst er að samhengi smita og dauðsfalla er gjörbreytt frá í vor. Þetta ræður miklu um breytt viðhorf til þess hver viðbrögðin við veirunni skuli vera.