Ólafur Ragnar um norðurslóðamál
Það var hressandi og upplýsandi að hlusta á Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands, ræða norðurslóðamál í Kastljósi í gærkvöldi (9. september).
Það var hressandi og upplýsandi að hlusta á Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands, ræða norðurslóðamál í Kastljósi í gærkvöldi (9. september). Hann lifir og hrærist í straumum sem tengjast þróun mála á þessu svæði sem sífellt ber hærra á alþjóðavettvangi. Að frumkvæði hans hafa menn komið úr öllum heimshornum að Hringborði norðurslóða (Arctic Circle) sem að þessu sinni, 2019, verður í sjöunda sinn 10. til 13. október í Hörpu.
Tilefni samtalsins við Ólaf Ragnar var vaxandi áhugi bandarískra stjórnvalda og stjórnmálamanna á norðurslóðum sem birtist á þessu ári í komu utanríkisráðherra og varaforseta Bandaríkjanna hingað til lands. Ólafur Ragnar taldi ekki síður máli skipta að hingað hefði komið fimm manna hópur bandarískra öldungadeildarþingmanna. Þar voru á ferð þingmenn úr báðum flokkum (D: demókratar, R: repúblíkanar): Sheldon Whitehouse (D-R.I.), Lisa Murkowski (R-Alaska), Joe Manchin (D-W.Va.), Maria Cantwell (D-Wash.) and John Barrasso (R-Wyo.). Hópurinn fór til sex landa á fimm dögum: Kanada, Grænlands, Noregs, Færeyja, Skotlands og Íslands.
Bandarískir öldungadeildarþingmenn koma af fundi um norðurslóðamál í stjórnarráðinu í maí 2019.
Ólafur Ragnar sagði að norðurslóðastefna Bandaríkjanna hefði ekki verið endurskoðuð í bandaríska utanríkisráðuneytinu heldur í þjóðaröryggisráðinu af þjóðaröryggisráðgjafanum John Bolton og í Pentagon. „Mig grunaði ekki að þeir myndu koma svona fljótt inn á þennan vettvang með slíkum krafti,“ sagði Ólafur Ragnar
Þarna vísaði hann til þess að fimmtudaginn 5. september sagði John Bolton á Twitter að hann hefði átt góðan fund í Hvíta húsinu þann sama dag með Cörlu Sands, sendiherra Bandaríkjanna í Kaupmannahöfn. Þau hefðu rætt leiðir til að „dýpka tengslin við Danmörku, Grænland og Færeyjar. Rætt var um norðurskautsmál, orkuöryggi, viðskipti, aukin efnahagstengsl við Grænland, þar á meðal um fjárfestingu í leit að steinefnum og endurnýjun flugvalla“. Birti Bolton mynd af sér og sendiherranum við hlið Hvíta hússins með færslu sinni. Frásögn Boltons er talin til marks um að æðstu menn Bandaríkjanna vilji bæta fyrir frumhlaup Donalds Trumps forseta á dögunum þegar hann sagðist vilja kaupa Grænland og brást við hinn versti þegar Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, sagði hugmyndina „fráleita“ – svaraði Trump og sagði forsætisráðherrann „viðbjóðslega“.
Ólafur Ragnar dró upp skýra mynd af þessu öllu í Kastljósinu og taldi enn til marks um nýja norðurslóðastefnu Bandaríkjastjórnar að orkumálaráðherra Bandaríkjanna yrði, að eigin ósk, aðalræðumaður í Hörpu nú í október. Rick Perry er 14. orkumálaráðherra Bandaríkjanna. Hann er fyrrverandi liðsmaður í flugher Bandaríkjanna, síðar stórbóndi og loks sá sem setið hefur lengst sem ríkisstjóri í Texas frá 2000 til 2015.
Ólafur Ragnar Grímsson sagði:
„Þetta er byrjun á nýrri stefnu gagnvart norðurslóðum þar sem þeir vilja gera Ísland og Grænland að helstu áherslusvæðum sínum í þessari nýju stefnumótun.“
Ísland ásamt Grænlandi og Færeyjum væru þar miðsvæðis og það væri orðið slíkur lykill að framtíðarþróun 21. aldarinnar að öll helstu áhrifaríki heims vildu eiga við þau samstarf.
Hér á vefsíðunni sagði 23. ágúst 2012:
„Scott Borgerson [situr nú í ráðgjafaráði Arctic Circle] sem ritaði fræga grein um norðurskautið í Foreign Affairs 2008 sagði við mig [í október 2008]að Ísland gæti orðið Singapore norðursins. Hann átti við að skipaumferðin gæti orðið af þeim toga á þessum slóðum, kannski sá hann fyrir að áhugi Kínverja yrði mikill á eyjunum í Norður-Atlantshafi ekki síður en á Suður-Kínahafi og þeir mundu fjölmenna til þeirra eins og til Singapore.“