Oki Rússa andmælt
Það er lofsvert samhengi í stefnu og gjörðum íslenskra stjórnvalda þegar þjóðir berjast undan rússnesku oki. Hitt er einkennilegt að Sigmundur Davíð hefur skipt um skoðun í þessu efni – hvers vegna?
Undir dagskrárliðnum óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra á alþingi fimmtudaginn 16. maí spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Bjarna Benediktsson forsætisráðherra þessara spurninga:
„Er það með vilja og vitund hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar að hæstv. utanríkisráðherra Íslands fer til Georgíu og tekur þar þátt í mótmælum? Er þar með lýst afstöðu ríkisstjórnar Íslands og er þetta eitthvað sem við getum átt von á, að ráðherrar landsins taki þátt í mótmælum í öðrum löndum?“
Bjarni svaraði að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra væri í för með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna til Georgíu ekki til að að taka afstöðu gegn stjórnvöldum heldur til að kynna sér ástandið og hlýða á þau sjónarmið sem þar eru uppi.
Forseti Georgiu með utanríkisráðherrum Íslands og Eystarsaltslandanna í Tíblisi 15. maí 2024.
Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu 15. maí segir að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sé í Georgíu ásamt utanríkisráðherrum Eistlands, Lettlands og Litáens. Ferð ráðherranna hafi verið farin í framhaldi af sameiginlegri yfirlýsingu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8-ríkjanna) sem gefin var út föstudaginn 10. maí.
Harðar deilur eru í Georgíu vegna þess að þing landsins hefur samþykkt lög að rússneskri fyrirmynd til að sporna gegn starfi frjálsra félagasamtaka og fjölmiðla með nýrri skilgreiningu á „erlendum útsendurum“. Setning laganna spillir stöðu Georgíu sem umsóknarríkis gagnvart ESB og NATO.
Hér er þessu haldið til haga til marks um að í orðum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar kveður við allt annan tón en í mars 2014 þegar hann lýsti velþóknun á ferð flokksbróður síns og utanríkisráðherra, Gunnar Braga Sveinssonar, sem fór til Úkraínu og efndi til blaðamannafundar til stuðnings þeim sem þá stóðu í þeim sporum að mótmæla yfirgangi Pútins og Rússa á götum úti. Þá sagði Sigmundur Davíð forsætisráðherra á alþingi: „Það er augljóst, þótt ekki væri nema af ferð utanríkisráðherra Íslands til Úkraínu, hvar ríkisstjórnin og ráðherrann standa í því máli.“ – Það er í stuðningi við Úkraínumenn gegn Rússum.
Gunnar Bragi fór til Kyív 21. mars 2014 og degi síðar var hann í „stífri dagskrá“ þar að sögn Heimis Más Péturssonar fréttamanns sem einnig var í borginni. Gunnar Bragi hélt blaðamannafund og fór á Sjálfstæðistorgið í Kyiv „þar sem fjöldamorðin voru framin fyrir mánuði síðan,“ segir í frétt Heimis Más 22. mars 2014 á visir.is.
Það ætti ekki að koma neinum íslenskum stjórnmálamanni á óvart að utanríkisráðherra Íslands leggi þeim lið sem berjast fyrir frelsi og sjálfstæði. Utanríkisráðherra Litháens var nýlega í BBC-samtalsþættinum Hardtalk. Þegar hann var spurður hvort hann héldi að það gagnaðist Tævan á einhvern hátt að þeir hefðu skrifstofu í Vilníus í óþökk Kína svaraði ráðherrann á þann veg að Litháar vissu að smáþjóðir gætu haft áhrif eins og þegar Íslendingar hefðu stutt sjálfstæði Litháa með upptöku stjórnmálasambands í óþökk Sovétmanna.
Það er lofsvert samhengi í stefnu og gjörðum íslenskra stjórnvalda þegar þjóðir berjast undan rússnesku oki. Hitt er einkennilegt að Sigmundur Davíð hefur skipt um skoðun í þessu efni – hvers vegna?