22.5.2021 9:13

Ójafn leikur í landbúnaði

Þar er þó ekki um neina uppgötvun okkar að ræða heldur tókum við saman fróðleik sem við öfluðum á 64 fundum með bændum, hagaðilum og sérfræðingum.

Undanfarið hef ég sótt nokkra fundi til að ræða og svara spurningum vegna umræðuskjalsins Ræktum Ísland! sem við Hlédís H. Sveinsdóttir sömdum með aðstoð Sigurgeirs Þorgeirssonar og Bryndísar Eiríksdóttur. Á fundunum gefst tækifæri til að skýra það sem í skjalinu felst auk þess sem alltaf bætist við þekkingu á þessum margbrotna málaflokki og gildi landbúnaðar fyrir þjóðlífið.

IMG_2452Ragnar Árnason, prófessor emeritus, skrifar grein í Morgunblaðið í dag (22. maí) og hefst út á þessum orðum:

„Fyrir skömmu kom út á vegum landbúnaðarráðuneytisins skýrsla um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland sem ber heitið Ræktum Ísland. Í skýrslu þessari kveður við miklu skynsamlegri tón en landsmenn hafa átt að venjast í opinberum gögnum um landbúnaðarmál.“

Þessi orð koma heim og saman við viðhorfið sem birtist á fundunum sem ég hef setið. Engu er líkara en þess hafi verið beðið lengi að íslenskur landbúnaður yrði settur í það samhengi sem við gerum í umræðuskjalinu. Þar er þó ekki um neina uppgötvun okkar að ræða heldur tókum við saman fróðleik sem við öfluðum á 64 fundum með bændum, hagaðilum og sérfræðingum. Markmið okkar var að lýsa því á skýran og einfaldan hátt hvaða áhrif þessir fundir höfðu á skoðanir okkar sem ekki voru endilega þær sömu þegar tekið var til við verkið í september 2020.

Niðurstaðan hefur því víða hljómgrunn og höfðar til þeirra sem lengi hafa tekist á við viðfangsefni sem tengjast landbúnaði. Í grein sinni kemst Ragnar Árnason svo að orði:

„Í skýrslunni er meðal annars það nýnæmi að horft er til starfsskilyrða íslensks landbúnaðar í alþjóðlegu samhengi. Vakin er athygli á því að í Evrópusambandinu nýtur landbúnaðurinn í veigamiklum atriðum betri starfsskilyrða en hér á Íslandi. Í sjálfum grunnlögum Evrópusambandsins, frá Rómarsáttmálanum 1957 til Lissabon-samningsins 2007, fær landbúnaður sérstakan sess og er undanskilinn almennum reglum sambandsins um ríkisstuðning, markaðsleiðsögn og samkeppni. Hvað samkeppnismál snertir er þetta hógværlega orðað í skýrslu Björns og Hlédísar (bls. 59):

„...bæði í Noregi og Evrópusambandinu eru almennari og rýmri ákvæði í löggjöf sem víkja til hliðar ákvæðum samkeppnislaga ef þau standa í vegi fyrir framkvæmd landbúnaðarstefnu stjórnvalda.“

Þessi orð er ekki sögð að tilefnislausu. Framkvæmd samkeppnislaga, en vel að merkja ekki lögin sjálf, hefur verið með þeim hætti að erfitt hefur verið fyrir íslensk fyrirtæki að ná þeirri stærðarhagkvæmni sem sjálfsögð þykir erlendis. Þetta hefur bitnað á landbúnaðnum ekki síður en öðrum atvinnuvegum.“

Þarna er drepið á kjarnaatriði sem snýr að stöðu Íslands sem landbúnaðarlands, sem það er og verður. Umsvif kjötvinnslu á Íslandi eru um 4% af því sem er hjá Danish Crown helsta erlenda keppinautnum, umsvif mjólkurvinnslu hér eru um 1% af því sem er hjá erlenda risanum Arla.

Íslensk landbúnaðarstefna og framkvæmd hennar verður að taka mið af þessu. Evrópsku stórfyrirtækin starfa við aðrar samkeppnisreglur á heimavelli en gilda um fyrirtæki hér.