Óhjákvæmilegt uppgjör vegna ofsaveðurs
Það var nauðsynlegt að skýra til hlítar hvað gerðist með Tetra-sambandið í Skagafirði. Að fella þann dóm yfir því sem gert var í forsíðufrétt Morgunblaðsins var ótímabært.
Hér birtist mynd af stórfrétt á forsíðu Morgunblaðsins laugardaginn 14. desember. Þar var sagt frá reynslu manna í ofsaveðrinu sem gekk yfir þriðjudaginn 10. desember. Fréttin hófst á þessum orðum:
„Tetra-kerfið lá niðri í Skagafirði í hátt í sólarhring og var svo mjög óstöðugt, datt inn og út, á meðan ofsaveðrið geisaði fyrr í vikunni. „Það var ekkert hægt að treysta á Tetra-kerfið,“ sagði Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra. „Við gátum notað kerfið til að tala saman hér innan svæðis, en vorum sambandslaus út fyrir svæðið eins og við fjarskiptamiðstöð lögreglunnar og Neyðarlínuna 112.“ Hann sagði að fara þyrfti yfir og laga áreiðanleika kerfisins samkvæmt fenginni reynslu. Það tengir saman lögreglu, slökkvilið, sjúkralið og björgunarsveitir og gegnir lykilhlutverki fyrir viðbragðsaðila þegar bregðast þarf skjótt við. „Það þarf að þétta netið og fjölga Tetra-sendum og vera með þá einnig á láglendi. Við erum með einn sendi fyrir okkur í Skagafirði. Hann er uppi á Tindastól í 700-800 metra hæð.Við getum ekki treyst einvörðungu á slíkt. Svo þarf að búa þannig um hnútana að þó að rafmagn fari af þá endist þeir lengur en í sólarhring. Það þarf öflugra varaafl,“ sagði Stefán.“
Á ruv.is birtist mánudaginn 16. desember:
„Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar segir hins vegar að truflunin [í Skagafirði] hafi einungis varað í tæpa þrjá tíma. Var hún til komin vegna þess að örbylgjusamband milli sendis á Einhyrningi og stöðvar á Sauðárkróki rofnaði. Venjulega séu tvær örbylgjusendingar þar á milli en þegar óveðrið skall á hafi einungis ein verið í gangi. „Það er eitthvað sem við gátum alls ekki gert neitt við. Við réðum ekkert við það, þetta er ekki okkar kerfi sem við erum að reka. Aftur á mót var nægilegt rafmagn þarna. Við fórum með varaaflsstöð og settum í gang og hélt stöðinni gangandi allan tímann. Auðvitað var þetta mjög bagalegt þarna og okkur þykir það leiðinlegt að þetta skyldi hafa verið úti í tvo tíma og fjörtíu og átta mínútur og er ekkert afsakanlegt.“
Bætir Þórhallur við að Neyðarlínan hafi í fimm ár freistað þess að koma á ljósleiðara milli Einhyrnings og Sauðárkróks en það hafi ekki tekist vegna afstöðu landeiganda.
Þórhallur segir mikilvægt að fólk fari varlega í yfirlýsingar þegar aðstæður eru sem þessar. „En bara til þess að segja það að það er nauðsynlegt að láta rykið sjatna og spyrja spurninga og ræða málin áður en einhverjar stórar yfirlýsingar um heilu kerfin séu settar fram.““
Í Kastljósi 16. desember kom fram að Neyðarlínan hefði tekið niður stöð í Hegranesi og kosið frekar að vera á Tindastóli enda næði stöð þaðan almennt til víðáttumeira svæðis en til greina kæmi að setja aftur upp stöð á láglendi í Skagafirði.
Það var nauðsynlegt að skýra til hlítar hvað gerðist með Tetra-sambandið í Skagafirði. Að fella þann dóm yfir því sem gert var í forsíðufrétt Morgunblaðsins var ótímabært þar sem málið hafði ekki verið brotið til mergjar.
Óhjákvæmilegt er að fara þannig yfir öll álitamál sem vakna. Þannig birtir Morgunblaðið frétt þriðjudaginn 17. desember sem sýnir að sjónarmið landeiganda urðu til þess að ekki var lagður jarðstrengur á landi hans, á 1,5 kílómetra kafla í Víðidal í Húnavatnssýslu, á þeim kafla er því enn loftlína. Tók RARIK þá ákvörðun í aðdraganda óveðursins að taka umrædda línu úr sambandi svo þessi kafli setti ekki út kerfi rafstrengja í Víðidal og nágrenni. Jók það vanda við að tryggja Hvammstanga rafmagn.
Loftlínan er vegna þess að landeigandinn vildi ekki sætta sig við þinglýsta kvöð sem RARIK ætlaði að setja á land hans um rafstreng þar „um alla eilífð“ eins og hann orðar það um leið og hann varar aðra við að láta ekki „plata sig“ með stöðluðum samningi frá RARIK.