28.10.2023 10:40

Óheppilegir meginstraumar

Það sem sameinar þetta þrennt sem hér er nefnt er að ekki er um nein náttúrulögmál að ræða heldur mannanna verk sem þeir geta breytt til batnaðar.

Hér skal gripið niður í þrjár greinar í Morgunblaðinu í dag, 28. október, fyrsta vetrardag.

Helgi Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði við Háskóla Íslands, kynnir niðurstöðu rannsókna sem sýna að launamunur ræðst af því að giftir karlmenn eru sérflokki með hærri tekjur en giftar konur og ógiftir karlar/konur. Þar ráði ekki duttlungar atvinnurekenda heldur val launþega, hjón ákveði til dæmis við eldhúsborðið hvernig hámarka skuli tekjur heimilisins. Þá segir:

„Gift hjón hafa að meðaltali meiri tekjur en summan af ógiftum karli og ógiftri konu. Ábatinn er arðsemi verkaskiptingar í hjónabandi og hann bókfærist (oftast) beint sem tekjur á karlinn í skattframtali. Hjónin í sameiningu (konan?) ákveða síðan hvernig tekjunum er ráðstafað. Allt tal um kynbundinn launamun er því misskilningur. Hinn raunverulegi munur er á milli giftra karla og hinna hópanna. Sennilega er sá munur vegna skynsamlegrar verkaskiptingar hjóna. Aðilar hjónabandsins njóta afraksturs verkaskiptingarinnar.“

Helgi dregur þá ályktun að laumamunur kynja sé ekki vegna vondra atvinnurekenda og þess vegna sé fráleitt „að það sé nauðsynlegt að skikka þá til að kaupa rándýra jafnlaunavottun til að sanna sakleysi sitt“.

IMG_8408

Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor við Árnastofnun, segir í dálkinum Tungutak þar sem fjallað er um íslenskt mál að hann hafi átt erindi í opinbera stofnun. Þar hitti hann háskólamenntaða unga konu og ræddi við hana á meðan mál hans runnu í gegnum kerfið. Gefum Gísla orðið:

„Hún hóf samtalið á því að spyrja við hvað ég starfaði. Ég sagðist vinna á Árnastofnun og hún brást óðara við með áhyggjum af stöðu íslenskunnar. Ég reyndi að hughreysta hana en hún spurði á móti hvort ég væri ekki hræddur við að enskan tæki yfir. „Neei, það þarf ansi mikið til að svo verði,“ sagði ég en hún svaraði að ég skyldi þá tala við yngri bróður sinn og vinahópinn hans. „Þau tala bara ensku sín á milli, alveg eins og einn af mínum vinahópum – þó að við kunnum öll íslensku.“

Sigurður Már Jónsson, blaðamaður og rithöfundur, skrifar aldarminningu um Guðmund Halldór Jónsson, stofnanda og forstjóra BYKO og síðar Fljótalax hf., sem fæddist í Neðra-Haganesi í Fljótum í Skagafirði 1923 og andaðist 1999. Hann segir Guðmund hafa fæðst þegar gamla íslenska bændasamfélagið var að líða undir lok og fólk fluttist á mölina. Guðmundur lauk verslunarprófi frá Samvinnuskólanum 1945 og starfaði hjá samvinnuhreyfingunni lengst af sem

verslunarstjóri byggingavörudeildar Sambandsins. Þá segir Sigurður Már:

„En Guðmundur vildi vera eigin herra og því tók fjölskyldan á leigu land úr jörðinni Vatnsenda og braut þar ófrjóa jörð og setti niður kartöflur og rófur. Uppskeran var síðan seld og ágóðanum varið í uppbyggingu eigin verslunarreksturs eins ótrúlegt og það kann að hljóma fyrir fólk í dag. Árið 1962 stofnaði hann svo, ásamt mági sínum, Hjalta Bjarnasyni (3. júní 1922 – 23. maí 1970), Byggingavöruverslun Kópavogs, BYKO, og opnaði 135 fermetra byggingavöruverslun við Kársnesbraut í Kópavogi. Fjölskyldurnar lögðu sparnað sinn undir við stofnun verslunarinnar.“

Hvað segja þessar þrjár tilvitnanir okkur?

1. Í nafni kenninga um launamun kynjanna sem ekki eru reistar á rannsóknum heldur pólitískum óraunveruleika hefur báknið verið stóraukið og kostnaður lagður á atvinnurekendur sem betur nýttist til annarra hluta.

2. Alþingi samþykkir málstefnu til varðveislu tungunnar en elíturnar sem telja sig sig varðmenn íslenskunnar deila um „kynlaust mál“ á sama tíma og yngri kynslóðir kjósa að tala saman á ensku af því að þær botna ekkert í rifrildinu um hvort áfram megi nota allir eða skylt sé að segja öll.

3. Regluverkið er orðið svo íþyngjandi á öllum sviðum að enginn fengi svigrúm til athafnafrelsisins sem menn nutu strax á fyrstu árum sjöunda áratugarins þegar viðreisnarstjórnin afnam gamla haftakerfið. Hannað hefur verið nýtt haftakerfi sem leggur þunga steina í götu sjálfstætt starfandi atvinnurekenda.

Það sem sameinar þetta þrennt sem hér er nefnt er að ekki er um nein náttúrulögmál að ræða heldur mannanna verk sem þeir geta breytt til batnaðar.