Óheillaþróun forsetaembættis
Nú er ekki lengur látið við það sitja að frambjóðendur segist ætla að feta í fótspor Ólafs Ragnar heldur segjast sumir ætla að beita synjunarvaldinu gegn ákveðnum málum.
Við upphaf lokaviku forsetakosningabaráttunnar sýnir könnun Prósents þrjár konur efstar og nær því jafnar eins og Morgunblaðið birtir í dag (27. maí): Halla Hrund Logadóttir (21%), Halla Tómasdóttir (20,2%) og Katrín Jakobsdóttir (20,1%), síðan er Baldur Þórhallsson (16,9%) og loks Jón Gnarr (11,4%), séu nefndir fimm efstu. Aðrir eru aukaleikarar og ekkert verður til þess að eitthvert þeirra komist í fyrstu deildina. Í meistaradeildinni eru þrjár konur og hver þeirra sem er kann að sigra með innan við 30% atkvæða. Að ekki þurfi meira fylgi til að komast á Bessastaði sýnir galla á kosningakerfi sem ætlað er að skila þjóðinni forystumanni til að sameina hana.
Forsetakosningar snúast um menn en eftir að Ólafur Ragnar Grímsson beitti 26. gr. stjórnarskrárinnar til að bregða fæti fyrir fjölmiðlafrumvarpið fyrir réttum 20 árum hefur forsetabaráttan beinst meira að því hvers kyns frumvörp nýr forseti kynni að stöðva, hvernig hann myndi grípa fram fyrir ákvarðanir alþingismanna. Þetta er óheillaþróun og skekkir stjórnskipunina.
Árið 2004 voru vinstriflokkarnir enn sárir eftir að komast ekki til valda í þingkosningunum 2003 þegar Samfylkingin ákvað að stilla sér upp við hlið Baugsveldisins og naut stuðnings fjölmiðla þess. Sú eitraða blanda gat af sér fjölmiðlafrumvarpið og fjölmiðlalögin sem alþingi samþykkti 24. maí 2004. Var fjölmiðlavaldi Baugsmanna beitt til þess annars vegar að safna undirskriftum með áskorun til forseta og hins vegar til að kalla forsetann heim úr ferð í útlöndum til að hindra að handhafar forsetavalds fengju lögin til afgreiðslu í fjarveru forseta.
Ólafur Ragnar tilkynnti 2. júní 2004 að hann hefði ákveðið að staðfesta ekki lögin, ekki vegna efnis laganna heldur vegna þess að hann taldi farsælast að þjóðin fengi að kveða upp sinn dóm um þau. Taldi hann sig einnig brúa með því „gjá“ milli þings og þjóðar. Þjóðin greiddi aldrei atkvæði um lögin, þau voru dregin til baka.
Forsíðufrétt Morgunblaðsins 27. maí 2024,
Nú er ekki lengur látið við það sitja að frambjóðendur segist ætla að feta í fótspor Ólafs Ragnars heldur segjast sumir ætla að beita synjunarvaldinu gegn ákveðnum málum og gefa til kynna að þeir muni „hlusta á þjóðina“ og með umvöndunum sínum beina afgreiðslu einstakra mála í sér þóknanlegan farveg á alþingi.
Halla Tómasdóttir hefur til dæmis sagt: „Forseti á fyrst og fremst að hlusta á þjóðina og alla hópa samfélagsins og meta þá hvort að það sé ástæða til þess að vísa málum til þjóðarinnar.“
Hvað felst í þessum orðum? Hvernig ætlar forseti að feta inn á þessar brautir?
Halla Hrund Logadóttir hefur sagt: „Það er mikil krafa á sölu á Landsvirkjun sem ég tel að muni koma inn á borð næsta forseta.“ Í raun er hér um innistæðulausa samsæriskenningu að ræða sem aldrei sannast því að Halla Hrund mun segja að engin tillaga hafi komið fram vegna hótunar sinnar um að stöðva málið sem forseti.
Þetta lofar ekki góðu um framtíð embættis sem er þess eðils að sá sem þar situr ber enga ábyrgð á stjórnarathöfnunum og á því að láta aðra um þær.