28.8.2019 8:16

Ögurstund samsæriskenninganna

Samsæriskenningar vegna þriðja orkupakkans ná líklega hámarki í blöðunum nú þegar alþingi kemur saman til að afgreiða hann.

Samsæriskenningar vegna þriðja orkupakkans ná líklega hámarki í blöðunum nú þegar alþingi kemur saman til að afgreiða hann. Þrjár frá því dag (28. ágúst) skulu nefndar hér:

Í Fréttablaðinu segir frá því að margir leggi leið sína í Reykjavíkurhöfn þar sem skipið Red Rock sem skráð er í Louisiana í Bandaríkjunum liggur við festar. Í blaðinu segir:

„Myndir af skipinu hafa verið birtar í hóp Orkunnar okkar á Facebook og fleiri stöðum. [Samuel] Lynch [skipstjóri] kemur af fjöllum þegar hann er spurður út í sæstreng, þriðja orkupakkann og atkvæðagreiðsluna á Alþingi. „Ég get fullvissað þig um að við höfum ekkert með það að gera,“ og bætir við:

„Nei, nei, nei. Við stundum rannsóknir á spendýrum í sjó, sjávarstraumum og sjávarbotni. Skipið þjónustar einnig olíuborpalla. Stundum vilja viðskiptavinir okkar að við tökum þátt í öðrum verkefnum, til dæmis að mæla dýpi og sjávarstrauma. Núna erum við í frekar óspennandi verkefni. ...Það er bara tilviljun að við erum hér, við erum að gera rannsóknir á dýpi og sjávarstraumum á svæðinu og það bara hitti þannig á að það hentaði best að koma til hafnar á Íslandi. Það sem við erum að gera kemur Íslandi ekkert sérstaklega við.“

Skipstjórinn segir rannsóknirnar ekkert tengjast raforku.

RED_ROCK.width-1220Mynd Fréttablaðsins af Red Rock

Tómas Ísleifsson líffræðingur segir í Morgunblaðinu:

„Með undirritun EES-samningsins hefur Ísland samþykkt að EFTA-dómstóllinn sé lögmætt úrskurðarvald um álitaefni samningsins. – Þangað skal sækja rétt dómþing. Dómstóllinn er bundinn af því að úrskurða í samræmi við regluverk EES-samningsins og regluverk ESB. [...]

Á grundvelli alls þessa evrópska regluverks er raunhæft að óttast að Ísland yrði fyrir EFTA-dómstólnum dæmt skaðabótaskylt, ef það hindraði lagningu sæstrengs. Slíkur skaðabótadómur dómstólsins mundi í engu skerða rétt Íslands til að hafna sæstreng, því höfnunarréttur Íslands er dómstólnum óviðkomandi. Réttur dómstólsins til að úrskurða um samningsbrot Íslands á EES-samningnum lægi hins vegar á borði dómstólsins.“

Þarna gefur höfundur sér ranglega þá forsendu að það sé brot á EES-samningnum að hafna lagningu sæstrengs hingað. Þá virðist hann ekki átta sig á leiðinni sem þarf að fara til að kalla á úrskurð EFTA-dómstólsins. Annaðhvort er það ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, sem verður að gera það eða íslenskur dómstóll sem fengi sæstrengsmál til meðferðar. Að ESA telji ástæðu til að bregðast við kvörtun einhvers sem fengi ekki að tengja sæstreng við íslenska raforkukerfið er nær óhugsandi. Tómas virðist ekki telja að málið geti farið fyrir íslenskan dómstól.

Benedikt Lafleur, formaður Lýðræðisflokksins, ræðir um flokksbróður sinn Bjarna Jónsson rafmagnsfræðing í Morgunblaðinu. Má skilja greinina á þann veg að Bjarni sé bæði í Sjálfstæðisflokknum og Lýðræðisflokknum. Segir Benedikt að Bjarni hafi haft frumkvæði að eftirfarandi samþykkt stjórnar Lýðræðisflokksins: „Orkupakka 3 skal vísa til Sameiginlegu EES-nefndarinnar, þar sem farið verði fram á undanþágu frá Orkupakka 3 í heild sinni og í kjölfarið verði aflétt hinum stjórnskipulega fyrirvara af honum, ef slík niðurstaða verður samþykkt i þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Vegna þessa er rétt að rifja upp að í maí 2017 stóð Ísland að því í sameiginlegu EES-nefndinni að orkupakkinn yrði tekinn upp í EES-samninginn og tók þar með á sig þjóðréttarlega skuldbindingu um að innleiða hann. Í orðunum „stjórnskipulegur fyrirvari“ felst ekki annað en að breyta þurfi íslenskum lögum vegna innleiðingarinnar og snýr lagabreytingin að skýrari ákvæðum um sjálfstæði Orkustofnunar til neytendaverndar. Tillaga Bjarna sem Lýðræðisflokkurinn samþykkti er reist á tvöföldum misskilningi (1) á hlutverki sameiginlegu EES-nefndarinnar og (2) á hugtakinu stjórnskipulegur fyrirvari.