5.2.2021 9:04

Ógagnsæ spillingarskýrsla

Fyrsta verk Íslandsdeildarinnar hlýtur að verða svara gagnrýni á TI fyrir óvönduð vinnubrögð og ásakanir á deildina sjálfa fyrir að draga ranga ályktun af skýrslu TI.

Í Staksteinum í Morgunblaðinu í dag (5. febrúar) er minnt á nýlega skýrslu og fréttatilkynningu Íslandsdeildar Transparency International(TI) um árlega mælingu á spillingu undir fyrirsögninni Staða Íslands versnar enn. Þá er bent á fréttaskýringu eftir Andreu Sigurðardóttur í Viðskiptablaðinu 4. febrúar og sagt að Andrea leiði í ljós að ályktun Íslandsdeildarinnar í fyrirsögninni sé „röng, nánast fals“.

Þetta er alvarleg ásökun í garð Íslandsdeildarinnar en Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri TI á Íslandi, og Engilbert Guðmundsson, stjórnarmaður í TI á Íslandi, birta einmitt grein í Morgunblaðinu í dag þar sem þeir gagnrýna íslensk stjórnvöld fyrir framtaksleysi gegn spillingu og segja einnig:

„Alþjóðasamtökin Transparency International (TI) voru stofnuð árið 1992 og hafa um langa hríð verið ein stærstu alþjóðlegu samtökin sem vinna að heilindum í stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptalífi hvarvetna í heiminum. Samtökin eru óháð stjórnvöldum og starfa í meira en 100 löndum og berjast gegn spillingu og því mikla óréttlæti sem hún veldur. Íslandsdeild TI hefur tekið til starfa.“

Fyrsta verk Íslandsdeildarinnar hlýtur að verða svara gagnrýni á TI fyrir óvönduð vinnubrögð og ásakanir á deildina sjálfa fyrir að draga ranga ályktun af skýrslu TI um Ísland eða standa nánast að falsi.

18366771_401Alþjóðasamtök sem kenna sig við gagnsæi – transparency – hljóta að verða við kröfum um gagnsæi þegar óskað er upplýsinga um mat samtakanna á Íslandi.

Hver er ástæðan fyrir þessum þunga dómi í Staksteinum. Þar segir:

„Merkilegast er þó að ástæðuna fyrir lækkun vísitölu Íslands má einvörðungu rekja til einnar undirvísitölunnar [matið á Íslandi er reist á nokkrum vísitölum], sem kemur frá Bertelsmann-stofnuninni, en þar hefur Ísland lækkað ört, ár frá ári síðan 2012, án þess þó að fyrir því séu færð rök.

Samkvæmt upplýsingum um aðferðafræði [Bertelsmann] meta tveir íslenskir sérfræðingar spillingu Íslands til stiga, hvor um sig út frá eigin huglægu mati [...] Íslensku sérfræðingarnir tveir sem hafa metið spillingu á Íslandi til stiga í áraraðir eru Þorvaldur Gylfason, prófessor við Háskóla Íslands, og Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri.“

Það er sem sagt til þeirra fræðaþula, sem rekja má spillinguna á Íslandi.“

Þýska stofnunin Bertelsmann Stiftung hefur sætt gagnrýni fyrir að vera ólýðræðisleg og ógagnsæ. Hún reyni á ámælisverðan hátt að ná eyrum stjórnmála- og áhrifamanna til að hafa pólitísk áhrif.

Að fulltrúar Bertelsmann Stiftung hér á landi telji að spilling aukist jafnt og þétt á Íslandi síðan 2012 helst líklega í hendur við þróun stjórnarskrármálsins eftir að stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum. Þær hafa síðan verið munaðarlausar á alþingi nema í nokkrar vikur á kosningaári þegar sett er á svið pólitískt leikrit til að telja fólki trú um að eitthvað bitastætt sé í tillögunum. Þetta var gert með alls kyns uppákomum í fyrra og árangursleysi aðgerðanna kann að birtast nú sem aukin „spilling“ að mati TI.

Að þegja um það sem miðlað er til Bertelsmann Stiftung og hvers vegna sú stofnun gjaldfellir Ísland stangast á við helstu andstæðu spillingar: gagnsæi.