3.6.2024 14:04

Ofurstyrkur sjálfstæðismanna

Þessi útlegging Elliða bregður ljósi á öfgarnar í kenningunum um að sjálfstæðismenn hafi ráðið öllu um úrslit kosninganna.

Hér var lýst undrun yfir því 31. maí, daginn fyrir kjördag að helst væri „vegið að sjálfstæðismönnum og þeir sakaðir um að svíkja lit“ lýstu þeir yfir stuðningi við þann frambjóðanda sem hvorki gæti né vildi leyna hvar hún hefði staðið í stjórnmálaflokki, Katrínu Jakobsdóttur. Eitt væri víst: kjósendur vissu að þeir keyptu ekki köttinn í sekknum með því að greiða henni atkvæði.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag (3. júní) segir um afstöðu þeirra sem börðust gegn Katrínu að mannkostir hennar og erindi í forsetaembætti hafi verið látið liggja milli hluta, en pólitískar skoðanir hennar og ferill meiru. Í embætti sem hafi „enga pólitíska vídd“.

Þessu sjónarmiði er nauðsynlegt að halda á loft vegna orða sem fallið hafa að kosningum loknum til þess enn og aftur að ala á flokkadráttum innan Sjálfstæðisflokksins vegna kosninganna.

Þá er ástæðulaust að gleyma því að allt frá árinu 2017 hafa allar valdastofnanir Sjálfstæðisflokksins ályktað til stuðnings aðild flokksins að ríkisstjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Þar er um flokkspólitíska afstöðu að ræða sem framfylgt er af þingflokki sjálfstæðismanna á alþingi. Hvaða orð á að nota þegar gert er mikið veður út af því og jafnvel líkt við „sturlun“ að einhverjir sjálfstæðismenn styðji Katrínu í embætti sem hefur „enga pólitíska vídd“? Líklega er „lýðskrum“ mildasta orðið um þennan málflutning?

Elliði Vignisson, sveitarstjóri í Ölfusi, ræðir um hlut sjálfstæðismanna í forsetakosningunum á FB-síðu sinni í dag. Hann segir:

„Forsetakosningar tókust vel. Við fengum forseta sem þjóðin er sátt við. Manneskju sem ég treysti fullkomlega til að valda þessu embætti.

ennnnnn....

Almennt er tvennu haldið fram:

a. Halla Tómasdóttir kemur úr hægri átt. Hún á hug og hjörtu hægrimanna.

b. Sjálfstæðisflokkurinn studdi Katrínu.

Mikið vildi ég geta trúað því að sigur okkar Sjálfstæðismanna sé jafn stór og rætt er, því ef þetta tvennt er rétt þá fengjum við hægri menn hátt í 60% fylgi.

Sjálfur efast ég um þessa söguskýringu en guð láti á gott vita.“

Screenshot-2024-06-03-at-13.07.02Af FB-síðu Elliða Vignissonar.

Þessi útlegging Elliða bregður ljósi á öfgarnar í kenningunum um að sjálfstæðismenn hafi ráðið öllu um úrslit kosninganna. Með orðum sínum minnir Elliði jafnframt á hve afstaða sjálfstæðismanna vó þungt fyrir alla frambjóðendur og hve mikils virði var fyrir þá að ná eyrum þeirra.

Það var á Samstöðinni undir forystu foringja sósíalista, Gunnars Smára Egilssonar, sem harðast var barist gegn Katrínu Jakobsdóttur. Þar var t.d. af velþóknun vitnað í femínistann Sóleyju Tómasdóttur, fyrrv. oddvita VG í borgarstjórn Reykjavíkur, sem sagði í grein á Vísi 31. maí að Katrín væri meðal kvenna „sem aðlagast valdinu og gangast jafnvel upp í karllægri hegðun til að öðlast samþykki innan kerfis“. Þess vegna væri ekki unnt að kjósa hana.

Hvað sem líður afstöðu einstakra sjálfstæðismanna til Katrínar voru það vinstrisinnar sem brugðust henni.