14.12.2020 10:31

Ofurstjórn á hálendinu

Alls 65 manna hópur, tveimur fleiri en sitja á alþingi, á að sýsla með þetta mannauða svæði. Er nokkur furða að sett sé spurningarmerki við þessa skipan?

Hálendisþjóðgarður er óskamál. Enginn er andvígur meginmarkmiðinu, að vernda hálendi Íslands. Að allir verði sammála um hvernig það verði best gert er borin von.

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður VG, hefur nú flutt og mælt fyrir frumvarpi um hálendisþjóðgarð. Allt er það í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og getur VG vel unað við að baráttumálið skuli komið á þetta stig á alþingi.

Við gang málsins til þessa hefur ráðherrann örugglega áttað sig á að deilur yrðu um það á þingi, meðal annars vegna andstöðu innan stuðningsflokka ríkisstjórnarinnar. Hann ákvað að láta reyna á hve langt málið kæmist. Að það stöðvaðist ekki í þingflokkum stjórnarinnar sýnir vilja til að ræða það til þrautar fyrir opnum tjöldum. Fráleitt er að líta á umræðurnar sem fjandskap við lokamarkmiðið, þær snúast um leiðir að því.

Index_1607941871972Í Morgunblaðinu í dag (14. desember) er sagt frá því að í sveitarstjórn Hrunamannahrepps á Suðurlandi hafi nýr meirihluti myndast um andstöðu við frumvarp ráðherrans þegar einn úr H-lista meirihlutans gekk í lið með tveimur sjálfstæðismönnum í sveitarstjórninni.

Í blaðinu er rætt við Jón Bjarnason, bónda í Hvítárdal oddvita sjálfstæðismanna í Hrunamannahreppi. Í fréttinni segir:

„Hér tók fólk afstöðu út frá eigin sannfæringu í máli sem skiptir okkur miklu,“ segir Jón. Hálendi sveitarfélagsins segir hann vera þjóðlendur, sem lúti sameiginlegri forsjá sveitarfélaga og forsætisráðuneytis. Sú samvinna hafi slípast ágætlega og breytingar á fyrirkomulagi séu óþarfar.

„Stofnun þjóðgarðs er ágæt fyrirætlun en asinn er of mikill, nægilegt samráð er ekki viðhaft við lagasmíði og spurningum ósvarað. Margir hér í sveit, eins og annars staðar á landinu, hafa sinnt sjálfboðaliðastarfi á hálendi og afrétti sveitarinnar svo sem við uppgræðslu, minjavernd og fleira. Slíkt starf verður að efla, en því er hætta búin með yfirtöku ríkisins.“

Hér er sérstaklega staðnæmst við lokaorðin. Í frumvarpinu er ráðgert að 11 manns sitji í stjórn hálendisþjóðgarðs undir forsjá ríkisins. Að auki komi svo sex níu manna umdæmisráð, 54 fulltrúar, til að fara með málefni sex rekstrarsvæða innan þjóðgarðsins.

Alls 65 manna hópur, tveimur fleiri en sitja á alþingi, á að sýsla með þetta svæði. Er nokkur furða að sett sé spurningarmerki við þessa skipan?

Í stað sjálfboðaliðastarfs heimamanna sem sjálfsagt er að stýra með reglum um friðun og skynsamlega landnýtingu boðar ríkið yfirtöku með 65 manns, bara í stjórn og ráðum, auk þess sem í farvatninu er þjóðgarðsstofnun til að negla miðstýringuna endanlega hjá ríkinu.

Skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögum, að hrifsa það frá þeim á þennan hátt með nýju ríkisbákni er varhugavert stílbrot ef ekki stjórnarskrárbrot en í 78. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.“ Samrýmist þessu ákvæði að svipta sveitarfélög skipulagsvaldi á hálendinu?