30.5.2020 9:38

Oftúlkanir á viðhaldsframkvæmdum

Þorsteinn dettur í sama pyttinn og Björn Jón við túlkun sína á eðli framkvæmdanna sem hér eru til umræðu.

Á vefsíðunni Eyjunni má lesa föstudaginn 29. maí má lesa að Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og starfsmaður fjölmiðlasamsteypu Helga Magnússonar, skrifi grein í einn miðil samsteypunnar DV um „deilur milli stjórnarflokkanna um framkvæmdir í Helguvíkurhöfn“ og segi margt líkt með því máli og ráðagerðum um alþjóðlegan varaflugvöll nærri Húsavík fyrir þremur áratugum.

Að líkja viðhaldsframkvæmdum í Helguvík og flýtiframkvæmdum við gistiskála á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli við hugmyndir um að fjármögnun NATO á nýjum flugvelli á Norðausturlandi undir lok níunda áratugarins stenst að sjálfsögðu ekki.

Fyrirsögnin á endursögninni á Eyjunni er Spyr hvort ríkisstjórnin muni springa út af varnarmálunum er þar væntanlega átt við vangaveltur Björns Jóns í grein hans. Spyrji hann að þessu er svarið, nei. Nægir að lesa það sem fram hefur komið opinberlega um þetta mál.

H4-6-Ratsjárstöðin á Gunnólfsvíkurfjalli (Mynd: lhg.is)

Hér var aldrei um það að ræða nú að íslensk stjórnvöld höfnuðu tillögum frá NATO heldur hvort það yrði hluti af flýtifjárveitingum vegna COVID-19 að fara í nánar tilgreindar framkvæmdir sem breyta engu um umsamdar framkvæmdir við NATO.

Reiði samfylkingarmanna í Reykjanesbæ og Loga Einarssonar, flokksformanns þeirra, vegna þess máls má rekja til þess að þeir töldu þingmann eða þingmenn Sjálfstæðisflokksins geta slegið sér upp á því. Meirihlutinn í Reykjanesbæ taldi sig ekki hafa nægar upplýsingar vegna málsins. Sjóndeildarhringurinn er ekki stærri þar á bæ.

Þorsteinn Pálsson, dálkahöfundur Fréttablaðsins, flaggskips fjölmiðlasamsteypu Helga Magnússonar, sagði í blaðinu 21. maí 2020:

„Andstæðingum varnarsamvinnunnar hefur ekki áður tekist að stöðva varnarframkvæmdir þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt aðild að ríkisstjórn. Í því ljósi var þetta frétt um pólitísk vatnaskil í varnarmálum.“

Þorsteinn dettur í sama pyttinn og Björn Jón við túlkun sína á eðli framkvæmdanna sem hér eru til umræðu. Útlegging Þorsteins verður enn dramatískari þegar hann segir:

„Standi þessir málavextir óbreyttir geta aðrar þjóðir með réttu litið svo á að VG hafi einnig neitunarvald, ef til þess kæmi að virkja þyrfti ákvæði varnarsamningsins vegna yfirvofandi ógnar. Það myndi setja strik í reikninginn um stöðu Íslands.“

Ekkert þessu líkt er hér í húfi. Þetta er hreinn hugarburður Þorsteins vegna varðstöðu hans um Viðreisn, flokk hans eftir brottför úr Sjálfstæðisflokknum.

Þorsteinn Pálsson stendur að Viðreisn vegna áhuga á inngöngu Íslands í ESB. Nauðsyn aðildar að Evrópusambandinu rökstuddi hann fyrir nokkrum árum með fullyrðingum um að Atlantshafsbandalagið (NATO) mætti sín einskis og þar með ekki heldur aðild Íslands að því. Var þá styttra á milli skoðana hans og VG á NATO en nú virðist vera.