Oft veltir lítil þúfa ....
Í Foreign Affairs rakst ég nú í fyrsta sinn eftir áratuga áskrift að tímarítinu á stutta umsögn um bók eftir íslenskan höfund. Hann er Egill Bjarnason.
Bandaríska tímaritið Foreign Affairs á sér langa sögu og er vegur þess mikill. Þar birtast oft stefnumótandi greinar sem hafa áhrif langt út fyrir Bandaríkin. Í tímaritinu er mikið lesinn dálkur um nýjar bækur þar sem viðurkenndir fræðimenn segja í örstuttu máli álit sitt á bókum sem eru væntanlegar eða nýlega komnar á markað.
Andrew Maitland Moravcsik (f. 1957) er prófessor í stjórnmálum og alþjóðastjórnmálum við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum og forstjóri Liechtenstein Institute on Self-Determination sem Hans Adam, prins af Liechtenstein, stofnaði við Princeton árið 2000. Prófessorinn skrifar um nokkrar bækur sem snerta Evrópu í nýjasta hefti Foreign Affairs.
Þar rakst ég nú fyrsta sinn eftir áratuga áskrift að tímarítinu á stutta umsögn um bók eftir íslenskan höfund. Hann er Egill Bjarnason (Harðarsonar bókaútgefanda og rithöfundar á Selfossi). Bókin (288 bls.) kemur út 11. maí hjá Penguin segir á vefsíðu Amazon og heitir How Iceland Changed the World: The Big History of a Small Island.
Moravcsik segir að sérhver þjóð geymi í minni sínu goðsagnir um heimssögulegan mikilleika – jafnvel Íslendingar. Enginn haldi málstað þessarar litlu eyjar fram af meiri ákafa en [Egill] Bjarnason, blaðamaður sem hleypti heimdraganum og hafi náð góðum árangri í heimi ensku mælandi þjóða. Af frásögn hans megi ráða að Íslendingar séu einskonar Forrest Gump meðal þjóða heims; þeir verði fyrir tilviljun miðdepill sérhvers stórviðburðar nútímasögu. Eldgos á Íslandi hrundu frönsku stjórnarbyltingunni af stað. Aðstaða í íslenskum höfnum í síðari heimsstyrjöldinni tryggði bandamönnum sigur. Háttvísir íslenskir dipómatar lögðu sitt af mörkum þegar Ísrael var stofnað. Íslendingar stuðluðu að því að Bobby Fischer varð heimsmeistari í skák. Þeir aðstoðuðu auk þess Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjov við að binda enda á kalda stríðið. Frásagnir íslenskrar barnfóstru urðu kveikjan að sögum J. R. R. Tolkiens. Íslenskir vísindamenn bjuggu bandaríska geimfara undir að ganga á tunglinu, þeir hafa verið í fararbroddi við virkjun endurnýjanlegra orkugjafa og lagt fram gögn að baki genatengingum. Og síðast en ekki síst segir Moravcsik að Íslendingar búsettir á Grænlandi hafi komið til Norður-Ameríku á 11. öld.
Fyrir okkur Íslendinga er það ekki nýnæmi sem bandaríski prófessorinn hefur að segja um efni bókar Egils Bjarnasonar. Á hinn bóginn er ástæða til að fagna því að þetta hefur allt verið tekið saman á einn stað og sett fram á þann veg að kunnur fræðimaður í sögu og stjórnmálum Evrópu sér ástæðu til að geta þess í virtu bandarísku alþjóðatímariti.
Bók Egils kemur út þegar hvatt er til þess að skipulega og vel verði staðið að endurreisn efnahagslífsins við sigur yfir veirunni með bólusetningu og afléttingu sóttvarna-hindrana á landamærunum. Að ólesinni bókinni er því spáð að þar sé sagt satt og rétt frá öllu sem varðar ofangreinda þætti Íslandssögunnar auk annars og textinn verði til að setja hluti sem oft er erfitt að skýra fyrir annarra þjóða mönnum í skynsamlegt samhengi.
Gleðilegt sumar!