10.11.2022 10:29

Ofsi í útlendingamálum

Á alþingi er leitað langt yfir skammt þegar þingmenn láta hjá líða að nýta sér þar þekkingu eins úr eigin hópi sem hann hefur aflað með alþjóðastarfi sínu.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, situr í flóttamannanefnd þings Evrópuráðsins. Þá hefur hann á eigin vegum ferðast til Úkraínu til að aðstoða og kynnast högum stríðshrjáðra íbúa landsins

Á vegum Evrópuráðsins fór Birgir til Grikklands og kynnti sé aðbúnað flóttafólks. Í Morgunblaðinu í dag (10. nóv.) segist hann hafa fengið staðfestingu „frá grískum stjórnvöldum um að hælisleitandi, sem notar hjólastól og var fluttur héðan í síðustu viku, verði ekki á götunni í Grikklandi heldur fái hann húsnæði“.

Þarna vísar Birgir til orða grísks formanns flóttamannanefndar þings Evrópuráðsins og ráðherra flóttamannamála í Grikklandi.

Birgir gagnrýnir að þrír þingflokkar, Viðreisnar, Pírata og Samfylkingar endurflytji nú tveggja ára gamla tillögu um að stöðva brottvísanir og endursendingar flóttafólks m.a. til Grikklands án þess að tillit sé tekið til umbóta sem orðið hafa á undanförnum tveimur árum.

1329799Birgir Þórarinsson alþingismaður hefur farið færandi hendi til barna í stríðshrjáðri Úkraínu (mynd: mbl.is).

Á alþingi er leitað langt yfir skammt þegar þingmenn láta hjá líða að nýta sér þar þekkingu eins úr eigin hópi sem hann hefur aflað með alþjóðastarfi sínu. Til hvers er slíkt starf sé því blákalt hafnað sem það leiðir í ljós?

Sannast hefur á undanförnum vikum eftir kynnisferð þingmannanefndar til Danmerkur og Noregs til að afla upplýsinga um útlendingamál og nú í umræðum um brottvísun hælisleitenda að stór hópur þingmanna blæs á það sem hentar ekki með upphrópunum og afvegaleiðir markvisst umræður um mikilvægt þjóðfélagsmál þar sem hvert misráðið skref, stigið án varúðar er dýrkeypt.

Flutt er þingsályktunartillaga sem er tveimur árum á eftir tímanum. Þingmaður Pírata lýsir útlendingastefnu Dana á þann veg að hún minni á „meðferð dýra“.

Þingmenn hafa fullt frelsi til að setja mál fram á þann hátt sem þeir kjósa. Velja þeir málstað sínum þann búning sem þeir telja falla best að skoðunum kjósenda þeirra hvað sem staðreyndum líður. Annað gildir um blaða- og fréttamenn miðla sem vilja vera trúverðugir.

Í Kastljósi ríkissjónvarpsins að kvöldi mánudags 7. nóvember voru til umræðu útlendingamál og brottvísanir hælisleitenda. Þingmenn Sjálfstæðisflokks, Bryndís Haraldsdóttir, og Pírata, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, áttu að ræða saman undir óhlutdrægri stjórn Bergsteins Sigurðssonar fréttamanns. Hann skipaði sér hins vegar í lið með hælisleitendum og píratinn brosti kampakát þegar þjarmað var að Bryndísi sem vísaði til gildandi laga og reglna. Um þá grunnþætti gildir sama um staðreyndirnar, þá þarf aðeins að virða falli það að málstaðnum.

Fréttamaður ríkisins ræddi við Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra á dögunum og saumaði að honum með spurningum sem hófust á orðunum „fólki finnst“ og var ráðherrann krafinn svara á grunni tilfinninga sem fréttamaðurinn taldi sig vita hverjar væru hjá öðrum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn í umræðum viðkvæmt mál sem ástæða er til að staldra við og spyrja: Hvers vegna þessi ofsi? Hvað gott leiðir hann af sér?