26.12.2017 13:08

Öflugur hagvöxtur besta úrræðið gegn fátækt

Rannsókn í 118 löndum í fjóra áratugi sýnir að næstum alla tekjuhækkun fátækasta hóps samfélaganna megi rekja til meðalhagvaxtar frekar en breytinga á tekjudreifingu.

Kjaramál setja nú sem fyrr sterkan svip á umræður um íslensk þjóðmál. Þau fá mikla athygli vegna sífellds samanburðar í litlu samfélagi milli ólíkra hópa launþega. Uppi er metingur um hver beri mest úr býtum og kallast hann nú „höfrungahlaup“. Vonir voru bundnar við að þetta hlaup mætti stöðva með svonefndu SALEK-samkomulagi. Það sýnist borin von. Hlaupið heldur áfram svo lengi sem enginn hefur áhuga á að stöðva það.

Ákvarðanir kjararáðs sæta gagnrýni og eru notaðar sem rök fyrir launakröfum annarra. Í Morgunblaðinu 21. desember er leitað til Yngva Harðarsonar, hagfræðings og framkvæmdastjóra Analytica, með beiðni um að bera saman þróun almennrar launavísitölu og vísitölu launa þeirra sem heyra undir kjararáð. Samanburðurinn nær til tímabilsins frá janúar 2016 til loka þess árs. Reiknað er út frá vísitölum sem kjararáð birti á vefnum 20. desember.

Samkvæmt áætlun Analytica hefur vísitala kjararáðs nú hækkað 3,4% meira en almenn launavísitala frá ársbyrjun 2016. Það bil aukist í 5,5% m.t.t. afturvirkra hækkana kjararáðs frá og með 1. janúar í ár. Er þá miðað við þá reikniforsendu að úrskurður kjararáðs haldi til tveggja ára.

Myndin birtist í Morgunblaðinu 21. desember.

Ekki er beint sannfærandi að þetta kalli á öll stóryrðin sem hafa fallið í tilefni ákvarðana kjararáðs. Mætti jafnvel álykta að sumt af því sem sagt er að þessu tilefni séu hvatningarorð um að menn skuli herða sig til meiri átaka í höfrungahlaupinu.

Hitt er að tímasetning og framsetning kjararáðs auðveldar mönnum að ala á tortryggni vegna ákvarðana þess. Starfshættir ráðsins minna á hætti dómara sem kveða upp úrskurð og telja frekari rökstuðning ónauðsynlegan. Niðurstöðu kjararáðs er ekki unnt að áfrýja á annan hátt en þann að krefjast þess af þeim sem lúta ákvörðunum ráðsins að gera þær að engu – lækka sjálfa sig í launum. Hlaupa afturábak í höfrungahlaupinu.

Hér var í gær vitnað í bókina Framfarir eftir Johan Norberg. Hann skrifar um fátækt og segir að í kaupauðgisstefnunni sem mátti sín hér á landi eins og annars staðar hafi fátækt verið nýtt til að knýja fólk til að leggja hart að sér, aðeins lág laun gætu lækkað framleiðslukostnað nægilega mikið til að gera þjóðir samkeppnishæfar. Margir hugsuðir þess tíma töldu að fengju fátækir launahækkun, hættu þeir að vinna og sætu þess í stað á krám. Hér lögðust stórbændur gegn því að kaupmenn fengju að hafa vetursetu af ótta við að þeir löðuðu að sér vinnuafl sem losnaði úr fátæktargreipum vistarbandsins.

Norberg kallar Adam Smith erkióvin kaupauðgisstefnunnar. Hann boðaði að hærri laun hvettu fólk til að vinna meira. Norberg segir að besta leiðin til að sigrast á fátækt sé að ná háum hagvexti og halda honum. Rannsókn í 118 löndum í fjóra áratugi sýni að næstum alla tekjuhækkun fátækasta hóps samfélaganna megi rekja til meðalhagvaxtar frekar en breytinga á tekjudreifingu. „Magn auðsins sem skapaður er hefur þannig meiri áhrif en dreifing hans,“ segir Norberg og hafnar brauðmolakenningunni. Menn séu ekki að bíða eftir að molar af borði ríkra falli til þeirra heldur vilji fá tækifæri til að auðgast af eigin þátttöku í öflugu atvinnulífi.