3.8.2017 10:01

Öflugur álitsgjafi

Eins og í öðrum greinum sem Arnar Þór hefur birt í blaðinu undanfarnar vikur víkur hann að málefni sem snertir daglega þjóðfélagsumræðu. Hann gerir það hins vegar á þann hátt að skapa sér sérstöðu.

Arnar Þór Jónsson lögfræðingur kynnir sem alþýðuheimspeking undir grein sem hann ritar í Morgunblaðið í dag. Greinin ber fyrirsögnina: Kjánalæti. Eins og í öðrum greinum sem Arnar Þór hefur birt í blaðinu undanfarnar vikur víkur hann að málefni sem snertir daglega þjóðfélagsumræðu. Hann gerir það hins vegar á þann hátt að skapa sér sérstöðu, hann er ekki hluti af suðinu sem einkennir um of það sem áhugamenn um þessar umræður lesa, þar gætir ekki síður hjarðhegðunar en annars staðar í samfélaginu. Grein Arnars Þórs hefst á þessum orðum:

„Ég verð að viðurkenna að Fésbókin er mér stöðug uppspretta vanlíðunar. Frammi fyrir kjánalátunum og hvítvínsglösunum og maraþonhlaupunum fæ ég minnimáttarkennd og samviskubit. Fréttaflutningur hefur einnig reynst vera nokkuð örugg ávísun á kjánahroll.“

Vegna áhuga míns á að nýta mér netmiðla til að fá nokkra sýn á þróun þeirra er ég í hópi miljarðanna sem eru virkir á Facebook. Ég þekki ekki Twitter, Instagram eða Snapchat.

Ég segi ekki að vanlíðun sæki oft á mig þegar ég renni yfir Facebook en óþægilegt er oft að standa frammi fyrir því að hafa opnað þar umræðuþráð sem á skömmum tíma er eyðilagður með skítkasti og svívirðingum í garð einstaklinga. Arnar Þór segir:

„Í samfélagi manna sem státa sig af frjálslyndi skortir umburðarlyndi. Í menningu sem kölluð er friðelskandi endurspeglast eilíf barátta. Á sama tíma og við erum minnt á að bera virðingu fyrir öðrum án tillits til bakgrunns er spjótum beint að hópum sem siðapostular nútímans hafa veitt skotleyfi á. [...]

Þegar stjórnmál taka að snúast um sjálfsmynd manna eða hópa er alls kyns eitruðum fræjum sáð, svo sem ofurviðkvæmni gagnvart andstæðum skoðunum. Gagnrýni verður þá að persónulegum árásum og orðaval jafnvel talið jafngilda ofbeldi. Við þær aðstæður verða til ný vandamál: Hvað má ræða og hvað má gagnrýna? [...] Byggjast stjórnmálin ekki á hraustlegum rökræðum þar sem viðfangsefnin eru rædd efnislega fremur en að svara með ásökunum um spillingu, illsku eða heimsku?[...]

Kjánar eiga erfitt með að setja fram málefnalega gagnrýni og kjósa fremur að horfa á aukaatriði. Viðhorf þeirra taka ekki mið af undirstöðurökum eða heildarmynd. Kjánarnir leggja meira kapp á að verja eigin stöðu en að verja það sem er satt og rétt. Þeir þvælast fyrir og standa jafnvel í vegi fyrir því að annað fólk geti komist að niðurstöðu.“

Undir þessi orð tek ég heilshugar og þakka Arnari Þór fyrir að gefa sér tóm til að rita greinarnar í Morgunblaðið. Þær eiga erindi.