3.4.2021 9:35

Öflugar efnahagsaðgerðir

Augljóst er að ráðstafanir stjórnvalda í fjármála- og efnahagsmálum skila þeim árangri sem að var stefnt.

Gallup gerði könnun fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið um viðhorf fyrirtækja til efnahagsaðgerða stjórnvalda. Í könnuninni mældist mikil ánægja með efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna Covid-19 og meirihluti fyrirtækja taldi sig standa fjárhagslega vel til að takast á við tímabundin áföll næstu mánuði. Mun fleiri fyrirtæki sjá fram á fjölgun starfsfólks heldur en fækkun.

EJ_bjarni_150620_07-002Bjarni Benediktsson

Frá niðurstöðum könnunarinnar var skýrt á vefsíðu ráðuneytisins á skírdag. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir í grein í Morgunblaðinu í dag (3. apríl) að þrátt fyrir rúmlega eins árs glímu við COVID-19-faraldurinn sé „staða okkar betri en flestir þorðu að vona“. Sé litið yfir þjóðarbúið sjáist þetta hvarvetna, til dæmis hafi skuldasöfnun og samdráttur í innlendri eftirspurn orðið „langtum minni en spár gerðu ráð fyrir og kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst í fyrra,“ segir ráðherrann.

Þetta kemur heim og saman við það sem Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor sagði á dögunum að kaupmáttur hér væri nú í hæstu hæðum. Hver hefði trúað spá um það fyrir ári? Augljóst er að ráðstafanir stjórnvalda í fjármála- og efnahagsmálum skila þeim árangri sem að var stefnt. Bjarni Benediktsson segir:

„Viðbrögðin [vegna veirunnar] voru ekki sjálfgefin og aðeins möguleg vegna þess að við stóðum á traustum grunni. Grunni sem byggist á fyrirhyggju síðustu ára, þar sem við nýttum betri tíð til að búa í haginn fyrir óvænt áföll.“

Af hálfu þeirra sem standa að sóttvörnum þjóðarinnar hefur verði lögð áhersla á að við séum öll almannavarnir, það sé undir okkur sjálfum. hverjum einstaklingi, komið hvernig takist að halda veirunni í skefjum, með hreinlæti, fjarlægðarmörkum og virðingu fyrir ráðstöfunum sem taldar eru nauðsynlegar hverju sinni. Inntak þessara ráðstafana sveiflast. Nú verður látið reyna á hvort gengið hafi verið of langt með því að skylda íslenska ríkisborgara til að dveljast lokaðir inni í sóttvarnahúsi komi þeir til landsins frá löndum sem íslensk yfirvöld telja hættuleg.

Í lok greinar sinnar segir Bjarni Benediktsson:

„Leiðin fram á við felst í því að veðja áfram á einstaklinginn.

Að trúa því að tækifærin verði til úti í samfélaginu, en ekki bara í Stjórnarráðinu. Að ýta undir framsækni og nýsköpun, frekar en að aftra henni með íþyngjandi sköttum og reglum. Að hlúa að einkaframtakinu, í stað þess að tortryggja það.

Að trúa á kraftinn í okkur öllum og samtakamáttinn sem ávallt skilar okkur sterkari út úr tímabundnum erfiðleikum. Um þetta snýst okkar stefna og ef við höldum fast við hana eru okkur allir vegir færir.“

Þarna birtist samhljómur milli þess sem dugað hefur best gegn veirunni og skilar okkur best fram á veginn efnahagslega, að nýta samtakamátt einstaklinganna.