Óflokksbundin vísindi
Sé reynt að koma þeim stimpli á Sjálfstæðisflokkinn að hann sé andvígur vísindalegri ráðgjöf er það dæmt til að mistakast.
Nú undir lok ársins 2021 kýs Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild, að flokksvæða umræður um COVID-farsóttina með því að vega í grein á vefsíðunni Kjarnanum að Sjálfstæðisflokknum vegna skoðana sem forystumenn hans hafa hreyft í umræðum um faraldurinn.
Þetta er misráðið hjá prófessornum. Innan Sjálfstæðisflokksins eins og annars staðar hafa menn ólíkar skoðanir á þessu máli. Sé reynt að koma þeim stimpli á Sjálfstæðisflokkinn að hann sé andvígur vísindalegri ráðgjöf er það dæmt til að mistakast.
Þeir sem fylgjast með umræðum um heimsfaraldurinn
í fjölmiðlum víða um lönd sjá að læknar, prófessorar eða aðrir vísindamenn eru
ekki sammála um allt sem gert er að gera ber.
Baráttuaðferðirnar gegn veirunni hafa frá upphafi tekið mið af því að starfsfólk Landspítalans standist gífurlegt álagið. Hér sést gamla spítalahúsið í forgrunni baðað lágsigldri síðdegissól kl. 15.10 30. desember 2021.
Atburðir ársins 2021 sýna að ekki er auðvelt að slá neinu föstu í vísindum.
Í kvöldfréttum ríkisjónvarpsins klukkan 19.00 föstudaginn 19. mars 2021 var það mat fréttastofunnar „að líkur á eldgosi [hefðu] minnkað til muna“ á Reykjanesi og jarðeðlisfræðingur sagði „ekki von á eldgosi alveg á næstunni“. Það hófst klukkan 20.45 sama kvöld við Fagradalsfjall.
Daginn eftir var gosinu lýst sem „óttalegum ræfli“ og sagt „pínulítið“. Nú i árslok er staðan sama og í mars, eftir jarðskjálftahrinu getur enginn sagt hvort eða hvenær gýs að nýju. Þegar síðast gaus þarna í upphafi 13. aldar stóð gosið í 30 ár.
Á fjölda funda á árinu um mótun landbúnaðarstefnu kom á óvart hve mikil gróska er í nýsköpun og rannsóknum í íslenskum landbúnaði. Þetta endurspeglast lítið sem ekkert í opinberum umræðum um landbúnað eða viðfangsefnin sem við blasa á þeim vettvangi. Þar eru gífurleg sóknarfæri verði tækifærin nýtt á skynsamlegan hátt.
Innan greinarinnar eru hins vegar ekki allir á einu máli. Þar eru til dæmis skiptar skoðanir um leiðir til að tryggja sjálfbæra landnýtingu. Þetta er lykilþáttur þegar litið er til landgræðslu annars vegar og beitar hins vegar. Vísindamenn hafa ólíkar skoðanir um þetta efni eins og bændur. Galdurinn er að finna sáttaleið.
Þegar rætt er um sjávarútvegsmál og deilt um kvótakerfið gleymist gjarnan að vísindaleg ráðgjöf um sjálfbæra nýtingu hafsins kallaði á skipulega stjórn fiskveiða og þar með kvótakerfið sem síðan hefur orðið tilefni mikilla stjórnmálaátaka. Á tæpum 40 árum frá því að kerfið kom til sögunnar hefur aldrei náðst full sátt um hvernig staðið er að vísindalegu ráðgjöfinni.
Stjórnmálamenn taka af skarið um aflaheimildir og úthlutun þeirra á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar. Vísindamennirnir þar halda sig til hlés frá flokkspólitískum umræðum.
Stjórnmálamenn verða einnig að taka af skarið á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar um gang farsóttarinnar. Þar gerist eitt í dag og annað á morgun. Nú vex þeirri skoðun fylgi hjá vísindamönnum að taka verði því sem að höndum ber, allir smitist að lokum. Það læknar engan að gera ólíkar skoðanir á leiðum út úr farsóttinni að flokkspólitísku máli í nafni vísinda. Það ómerkir vísindin.
Ég þakka lesendum síðu minnar samfylgdina á árinu 2021.