3.1.2019 10:10

Oflátungar í Efstaleiti

Í leiðurum Fréttablaðsins og Morgunblaðsins er boðskapurinn sá sami í dag: Ríkisútvarpið kann ekki að skammast sín.

Ólafur Thors, fyrrv. formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, andaðist 31. desember 1964. Vegna þessa ákvað Bjarni Benediktsson, þáv. forsætisráðherra, að breyta áramótaávarpi sínu á síðustu stundu og fá það tekið upp að nýju til flutnings um kvöldið í ríkisútvarpinu.

Síðan hefur verið fylgt því fordæmi að taka ekki upp áramótaávarp forsætisráðherra fyrr en á gamlársdag. Þetta er nefnt hér í dag (3. janúar) þegar Ólöf Skaftadóttir, ritstjóri Fréttablaðsins, kvartar í leiðara undan að forsætisráðherra mæti ár hvert „rúmlega hálftíma of seint í beina útsendingu Kryddsíldarinnar, þar sem árið er gert upp með forystumönnum stjórnmálaflokkanna á Stöð 2“.

Þá segir Ólöf:

„Ástæðan er sú að á sama tíma í Efstaleiti [höfuðstöðvum ríkisútvarpsins] er ávarp forsætisráðherra tekið upp. [...] Þrátt fyrir ítrekaðar umleitanir af hálfu einkamiðilsins sér Ríkisútvarpið sér ekki fært að taka upp ávarpið, sem ekki er sýnt í beinni útsendingu, á neinum öðrum tíma en þeim tveimur klukkustundum sem Kryddsíldin er í loftinu. Þetta er einungis lítið dæmi um yfirgang Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði, en segir hins vegar heilmikla sögu.“

Miðað við forsöguna er það auðvitað forsætisráðherrann sem ræður tímanum en ekki ríkisútvarpið, ekki er um beina útsendingu á föstum dagskrárlið að ræða. Ráðherrann kann hins vegar að líta svo á að hann eigi að sitja og standa eins og ríkisútvarpinu þóknast. Viðhorfið úr Efstaleitinu í garð þeirra sem finna að starfseminni er á þann veg.

846615Við kvörtunum undan lélegri hljóðsetningu í Ófærð II er svarið að fólk sé of óvant að hlusta á ótextað tal. Um rökstuddar ábendingar um pólitíska slagsíðu á Skaupinu er sagt að höfundunum og leikstjóranum dytti aldrei í hug að bjóða efni með slagsíðu. Þó er í hópnum fyrrverandi borgarstjóri sem sýnir Sjálfstæðisflokknum að jafnaði einskæra óvild. Lokasvarið er birting á tölum um að fleiri hafi horft Skaupið núna en 2017. Gagnrýnin er jafnframt háværari nú en oft áður enda hætta hlutir örugglega að verða fyndnir þegar þeir snúast um aðgang að blóðbankanum.

Í leiðara Morgunblaðsins segir í dag:

„Kosturinn við áramótaskaup Ríkisútvarpsins nú er að það setti nýjan botn með afgerandi hætti. Ganga má út frá því og jafnvel vona að það taki nokkurn tíma að slá þetta met. Engar líkur standa þó til þess að oflátungarnir sem stjórna þessari stofnun og þykjast eiga hana læri nokkuð. Þar á bæ kunna menn sjálfsagt sitthvað, en að skammast sín er þá ekki eitt af því.“