12.7.2025 11:13

Öfgastjórn

Vissulega ber að sýna eldra fólki virðingu. Þorgerður Katrín lifir kannski í minningunni um fjölmiðlafrumvarpið og átökin vegna þess fyrri hluta árs 2004 þegar Ólafur Ragnar beitti forsetavaldi í fyrsta sinn 

Í leiðara Morgunblaðsins í dag (12. júlí) er stjórnarháttunum sem Kristrún Frostadóttir innleiddi á alþingi föstudaginn 11. júlí líkt við það sem þekkist hjá Viktor Orbán í Ungverjalandi og Recep Tayyip Erdogan í Tyrklandi. Öfgastjórnendum sem halda í völdin með því að útmála stjórnarandstöðuna sem fulltrúa hins illa og hlaða undir sjálfa sig, auði og völdum.

Þær Kristrún og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hafa hlaðið undir sig auði á umdeildan hátt. Stjórnarmyndunin tryggði ráð Ingu Sæland húsnæðis- og félagsmálaráðherra yfir auðsöfnun hennar úr ríkissjóði. Nú festa þær stöllur sig í sessi og gefa minnihluta þingsins fingurinn.

Fræðimenn, virkir og óvirkir, leggja sig fram um að réttlæta öfgavinnubrögðin. Fréttamenn leita til þeirra í vissu um að svörin séu þríeyki stjórnarinnar í vil og munu fela í sér gagnrýni á að stjórnarandstæðingar nýti sér málfrelsi sitt á þingi. Þessum álitsgjöfum er gjarnt að segja að annars staðar í norrænum ríkjum myndi slík framganga á þjóðþingum ekki verða liðin. Þeir láta þess ógetið að í þessum ríkjum myndi stjórnvöldum aldrei detta í hug eða líðast að leggja fram jafnilla unnið frumvarp um jafnstórt mál og það sem veldur hér deilum.

1581217Í viðtlaii við Morgunblaðið í heimsókn um borð í kjarnorknúinn kafbát við bryggju á Grundartanga 10. júlí útilokaði Þorgerður Katrín ekki beitingu kjarnorkuákvæðis í þingsköpum um leið og hún úthúðaði sínum gamla flokki, Sjálfstæðisflokknum (mynd: mbl/Árni Sæberg).

Það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar tveir ráðherrar Viðreisnar efndu til blaðamannafundar og kynntu veiðigjaldsfrumvarpið til sögunnar. Síðan hefur málið verið rekið áfram af Þorgerði Katrínu Gunnardóttur. Á lokametrunum ýtti hún bæði forsætisráðherra og Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra til hliðar. Í ófáum ræðum á þingi hefur hún talað eins og sú sem valdið hefur, hún hafi setið lengst á þingi, langlengst af þeim sem þar sitja nú.

Vissulega ber að sýna eldra fólki virðingu. Þorgerður Katrín lifir kannski í minningunni um fjölmiðlafrumvarpið og átökin vegna þess fyrri hluta árs 2004 þegar Ólafur Ragnar beitti forsetavaldi í fyrsta sinn til að verja hlut auðmannanna sem áttu meirihluta íslenskra fjölmiðla. Miðlarnir eru að vísu allir úr sögunni eða komnir að fótum fram núna. Skyldi einhverjum detta í hug að Halla Tómasdóttir beiti forsetavaldi núna til að verja hagsmuni fjölskyldnanna fjögurra eða fimm sem Kristrún ætlar að knésetja með þessu frumvarpi? Ætti forseti ekki að hugsa sig tvisvar um? Aldrei hefur forseti þurft að bregðast við frumvarpi sem sett er með kúgunarvaldi eftir að Ólafur Ragnar virkjaði 26. gr.

Fræðimennirnir sem kallað er á til að blessa öfgastjórnina eru misjafnlega vel að sér. Einn sagði að málþóf heppnaðist aldrei nema þjóðin stæði með málþófsmönnum. Þetta er rangt. Sjálfstæðismönnum tókst með málþófi vorið 2009 að eyðileggja áform Jóhönnu Sigurðardóttur um að svipta alþingi stjórnarskrárvaldinu.

Sjálfstæðisflokkurinn var ekki hátt skrifaður þá, nokkrum mánuðum eftir hrunið – þá var talað um að hann yrði drepinn eins og talað var eftir fjölmiðlamálið. Nú heyrist sami söngurinn.

Í málflutningi sínum núna treysta stjórnarsinnar sér ekki til að hampa eigin frumvarpi. Þeir kætast með hlátrasköllum bak við luktar dyr þingflokksherbergjanna af því að þeir hafi barið á stjórnarandstöðunni. Hugarfarið leynir sér ekki. Sá hlær þó enn best sem síðast hlær.