3.11.2021 9:23

Öfgar Landverndar

Þjóðarhagur hefur verið leiðarljós í rekstri Landsvirkjunar frá upphafi. Allt annað virðist ráða ferð hjá Landvernd sem málar sig enn einu sinni út í horn með grein framkvæmdastjórans.

Alkunna er að öfgasjónarmið koma auðveldlega óorði á góðan málstað. Þetta birtist til dæmis núna í Glasgow þegar kynnt eru sjónarmið þeirra sem hafa allt á hornum sér en engar lausnir.

Almennt er viðurkennt að jörðin hlýnar og hafa þjóðir heims komið sér saman um vinna gegn hlýnuninni. Í umræðum um hana eru dregnar fram öfgar í veðurfari til að minna á hættur af hlýnuninni þótt jafnan heyrist raddir að ekki sé um einsdæmi að ræða. Þá er birt tölfræði sem dregið er í efa að reist sé á fræðilegum grunni.

Í þessum umræðum eins og svo mörgu öðru í samtímanum vilja ýmsir stytta sér leið í þágu eigin málstaðar og beinlínis útiloka að önnur sjónarmið birtist til að komast hjá rökræðum. Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, birti til dæmis grein á vefsíðunni visir.is þriðjudaginn 2. nóvember þar sem hún fjargviðrast yfir því að rætt hafi verið við Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar, í Kastljósi í liðinni viku. Þykir Auði „mjög miður“ að forstjórinn hafi „nánast mótbárulaust [fengið] að útlista þeirri sýn sinni að fórna eigi íslenskri náttúru án þess þó að útskýra með skýrum hætti hver ávinningurinn á að vera“.

Orð Auðar eru örugglega óskýrari um þetta mál en það sem Hörður hafði fram að færa. Þarna slær hún án nokkurra raka fram skoðun um að ekki megi framleiða hér meiri endurnýjanlega orku án þess að íslenskri náttúru sé fórnað. Látið er eins og þetta séu algild sannindi þótt vitað sé að löngum stundum hefur verið setið yfir gerð svonefndra rammaáætlana þar sem komist er að allt annarri niðurstöðu en síðan ferlið eyðilagt með fyrirslætti og tafaaðgerðum, ef til vill til að þóknast öfgaviðhorfum Landverndar.

1220016Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar (mynd: mbl.is).

Til að gera lítið úr spyrlinum í Kastljósi og auðmýkt hans gagnvart Landsvirkjunarforstjóranum segir framkvæmdastjóri Landverndar að hann hafi fengið „silkihanskameðferð“ miðað við sóttvarnalækni og fráfarandi forstjóra Landspítala í sama þætti.

Að baki grein Auðar Önnu Magnúsardóttur býr ekki aðeins óvild í garð forstjóra Landsvirkjunar og þess fyrirtækis heldur allra stóriðjufyrirtækja á landinu. Hún tekur kísilverið á Bakka við Húsavík sem dæmi til að sanna þá kenningu sína að það sé „gjaldþrota stefna“ að standa að slíkri atvinnustarfsemi. Vill hún að um hana eða seljendur raforku til hennar sé ekki rætt á annan hátt en fellur að öfgasjónarmiðum Landverndar. Grein sinni lýkur framkvæmdastjóri Landverndar á þessum orðum:

„Forsvarsfólk Kastljóss er hvatt til þess að annað hvort hleypa ekki einhliða umræðu, sem drifin er af þröngum hagsmunum, að í þættinum eða að kynna sér málefnin til hlítar þannig að þáttastjórnendur geti spurt gagnrýnna spurninga.“

Vissulega má gagnrýna spyrla Kastljóss fyrir að hafa ekki næg tök á umræðuefninu, hitt er fráleitt að telja sjónarmið forstjóra Landsvirkjunar „drifin .. af þröngum hagsmunum“. Þjóðarhagur hefur verið leiðarljós í rekstri Landsvirkjunar frá upphafi. Allt annað virðist ráða ferð hjá Landvernd sem málar sig enn einu sinni út í horn með grein framkvæmdastjórans.