Öfgar í útlendingamálum
Vill Sema Erla að aðeins séu þeir skipaðir til setu í áfrýjunardómstóli sem ávallt hafa í héraðsdómi dæmt á þann veg að áfrýjun máls leiði ekki til nýrrar niðurstöðu?
Samfylkingarkonan Sema Erla Serdar, stofnandi Solaris, hjálparsamtaka hælisleitenda á Íslandi, hefur farið mikinn vegna þess að lögfræðingurinn Þorsteinn Gunnarsson var skipaður formaður kærunefndar útlendingamála til næstu fimm ára. Þorsteinn var staðgengill forstjóra útlendingastofnunar. Hann starfaði í rúman áratug hjá stofnuninni og er því betur að sér um málaflokkinn og lögin sem um hann gilda en flestir aðrir.
Í samtali sem birtist 28. ágúst á mbl.is viðurkennir Sema Erla að sér hafi komið á óvart að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir skipaði Þorstein vegna þess að hjá útlendingastofnun hafi um árabil ráðið „mjög harkaleg og fólksfjandsamleg stefna“. Nefnir Sema Erla dæmi um að kærunefndin hafi snúið við niðurstöðum útlendingastofnunar og segir þess vegna „mjög óeðlilegt“ að Þorsteinn sé gerður að formanni nefndarinnar.
Ágreiningur um túlkun laga er dag hvern og mörgum sinnum á dag reifaður fyrir dómstólum. Héraðsdómarar komast að niðurstöðu og henni má áfrýja til æðri dómstóls sem kann að líta málið öðrum augum og dæma í samræmi við það. Vill Sema Erla að aðeins séu þeir skipaðir til setu í áfrýjunardómstóli sem ávallt hafa í héraðsdómi dæmt á þann veg að áfrýjun máls leiði ekki til nýrrar niðurstöðu?
Kærunefnd útlendingamála er áfrýjunarnefnd, niðurstöðum hennar má síðan skjóta til dómstóla. Með kærunefndinni var ætlunin að tryggja „faglega“ niðurstöðu mála eins og það er orðað þegar þau eru tekin undan ákvörðunarvaldi ráðherra. Reynslan hefur hins vegar sýnt að Sema Erla og félagar líta fram hjá því og hvetja til pólitískra mótmæla vegna einstakra hælisleitenda og láta enn eins og ráðherra eigi síðasta orðið.
Nú hefur stjórnmálaflokkur, Píratar, tekið undir kröfu Semu Erlu um að útlendingastofnun verði lokað. María Lilja Þrastardóttir, frambjóðandi Sósíalistaflokksins í Reykjavík, réðist á Þorstein með pólitískum svívirðingum sem sýna að hún er rökþrota þegar um útlendingamál er að ræða.
Upphrópanir Semu Erlu, andstaða Pírata við útlendingastofnun og svívirðingar frambjóðandans Maríu Lilju í garð Þorsteins Gunnarssonar eru í órafjarlægð frá öllum umræðum um útlendingamál í nágrannalöndunum. Þar dytti aðeins fámennum öfgahópum að flytja slíkan boðskap eða óhróður.
Sé tekið mið af yfirlýsingum Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, er draumastjórn hans að loknum kosningunum 25. september sett saman af flokkum sem enduróma sjónarmið þessa fólks. Í borgarstjórn Reykjavíkur leggur Viðreisn þessum stjórnmálaöflum lið og þar er fyrirmyndin að ríkisstjórninni sem Loga dreymir um að leiða.
Sé stofnað til umræðna um einhvern skjólstæðing Semu Erlu í hópi hælisleitenda leiðir það eitt til mótmælaaðgerða. Yrðu svipuð orð notuð í slíkum umræðum og Sema Erla og félagar nota nú um andstæðinga sína yrði það að kærumáli, tilefni upphrópana og hneykslunarfrétta.