Öfgafólk í ógöngum
Hugmyndafræðilega eru þau á sömu línu Ragnar Þór
og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Í nóvember 2019 viðraði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hugmyndir um að verkalýðshreyfingin tæki þátt í þingkosningum með eigin framboði. Þá sagði hann meðal annars:
„Ég er ekki kominn langt og þetta hefur ekkert verið formlega rætt innan okkar raða. Ég er að þreifa fyrir mér svona maður á mann. Ég er líka að ræða við fólk úr öðrum flokkum sem er orðið langþreytt á því sama og við. Það kemur væntanlega í ljós fljótlega hvort einhver flötur er á þessu en eitt er víst að ég hef aldrei fengið önnur eins viðbrögð við neinu sem ég hef gert. Það er hvatningu og jákvæð viðbrögð. Mér finnst greinilegt að fólk sé að kalla eftir einhverju svona. Svo verður að koma í ljós hvað gerist.“
Það reyndist greinilega ekki fylgi við þessa hugmynd Ragnars Þórs og nú á kosningaári talar hann um nauðsyn þess að verkalýðshreyfingin „geri sig gildandi“ vegna kosninganna.
Ragnar Þór er í róttækari armi ASÍ, jafnvel til vinstri við Drífu Snædal, forseta hreyfingarinnar, og er þá mikið sagt. Ragnar Þór „gerði sig gildandi“ gagnvart stjórn lífeyrissjóðs verslunarmanna og beitti sér gegn því að sjóðurinn keypti hlutabréf í Icelandair í fyrra. Framkvæmd krafna hans um það efni hefur ekki reynst sjóðnum arðbærar.
Sólveig Anna Jónsdóttir og Ragnar Þór Ingólfsson (mynd visir.is).
Hugmyndafræðilega eru þau á sömu línu Ragnar Þór og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Sólveig Anna tók þátt í að stofna Sósíalistaflokk Íslands með Gunnari Smára Egilssyni. Viðar Þorsteinsson sem varð framkvæmdastjóri Eflingar eftir hreinsanir Sólveigar Önnu á skrifstofu verkalýðsfélagsins samdi lög Sósíalistaflokks Íslands.
Þórarinn Ævarsson, eigandi Spaðans, bendir í grein í Morgunblaðinu í dag (28. janúar) á enn eitt dæmið um óvandaðan málflutning Eflingar undir forystu Sólveigar Önnu og Viðars Þorsteinssonar. Þau sendu frá sér greinargerð til að rökstyðja lagabreytingar til að sporna við því sem Efling kallar „launaþjófnað“. Af því tilefni spyr Þórarinn:
„Er ekki hægt að gera þá lágmarkskröfu á forsvarsmenn eins stærsta verkalýðsfélags Íslands að þeir reyni í það minnsta að námunda sig við sannleikann í stað þess að fabúlera út í loftið og draga ályktanir sem ganga þvert gegn þeim gögnum sem þeir eru að kynna?“
Þórarinn segir einnig:
„Við sem fylgjumst með á hliðarlínunni vitum að það veldur byltingarþenkjandi forystu Eflingar sárum vonbrigðum að geta ekki sýnt fram á það stórkostlega arðrán sem henni er svo gjarnt að tala um, en það vill sem betur fer svo til að við búum í landi þar sem hlutirnir eru almennt betri en gengur og gerist, sem og traust á milli aðila. Við lifum ekki á tímum Dickens, þar sem réttindi fólks eru fótum troðin, og tala tölurnar sínu máli þar um.“
Það verður forvitnilegt að sjá hvaða áhrif þessar rökstuddu ávítur hafa á Sólveigu Önnu. Sé vikið að forystu Eflingar með málefnalegri gagnrýni heyrist oftast neyðaróp um að vegið sé að sálarheill formannsins. Sé tekinn upp hanskinn fyrir fólkið sem hún úthýsti með hreinsunum sínum er svarað með hrakyrðum.