Ofbeldi í grunnskólum
Það er aðeins skýr pólitísk forysta sem dugar til að eyða kýli af þessum toga. Sé hún ekki sýnd hreyfir sig enginn í kerfinu. Meirihluti þings og borgarstjórnar er samstiga í því að gera ekki neitt.
Fréttum um ofbeldi í grunnskólum fjölgar víðar en hér á landi. Í nokkrar vikur hefur danska blaðið Berlingske markvisst beint athygli að stöðu mála í dönskum grunnskólum og til dæmis birt kort af Kaupmannahöfn sem sýnir skóla þar sem ástandið er verst.
Í blaðinu kemur fram að í svörum frá þriðjungi skóla landsins segi að á undanförnum tveimur árum hafi alls 1.778 nemendum verið vísað úr skóla, langflestum fyrir ofbeldi.
Meiri en helmingur kennara, 58%, segir að ofbeldi í samskiptum nemenda hafi vaxið undanfarin fimm ár.
Blaðið hefur rætt við sérfræðinga, stjórnmálamenn, kennara, foreldra og skólafrömuði sem benda á þrjár meginástæður fyrir þessu:
1. Fleiri börn með greiningu eru send í venjulega skóla.
2. Í uppeldi eru börnum sett fá takmörk, barnið er ávallt miðpunkturinn.
3. Illa inngilt börn með annan bakgrunn en vestrænan.
Morgunblaðið 15. mars 2025.
Ástandið í Breiðholtsskóla hefur verið mjög til umræðu. Bryndís Haraldsdóttir, Sjálfstæðisflokki, vísaði í þingræðu 17. mars til þess að reglugerð um grunnskóla geri ráð fyrir að foreldrar eða skólar geti óskað eftir aðstoð sérstaks fagráðs sem starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytisins takist ekki að finna viðunandi lausnir innan skólans eða sveitarfélagsins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðkomu skólaþjónustu.
Spurði Bryndís mennta- og barnamálaráðherra Ásthildi Lóu Þórsdóttur, Flokki fólksins, hvernig hún hefði beitt sér vegna umræddra mála, hvort fagráð ráðuneytis hennar hefði komið að málum Breiðholtsskóla.
Í stuttu máli var svar ráðherrans óljóst. Þessi mál væru „gríðarlega flókin“ og það væri „bara ofboðslega erfitt að eiga við þetta“. Eftir ítrekun fyrirspurnarinnar sagði ráðherrann að fagráðið sem væri hluti af Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hefði „verið inni í þessum málum“.
Fyrri reynsla af umræðum um skólamál sýnir að þessi miðstöð liggur á upplýsingum um skólastarf. Hún er andvíg því að það sé gagnsætt.
Jón Pétur Zimsen, Sjálfstæðisflokki, sagði réttilega á þingi þriðjudaginn 18. mars að það „þarf mikinn kjark til að koma fram og gagnrýna skóla barnanna sinna“. Enginn vilji eiga í illdeilum við skóla barnanna sinna. Skólar eigi að vera griðastaður en ekki vettvangur daglegs ofbeldis árum saman.
Hér væru embættismenn, stjórnmálamenn og ráðherra á góðum launum sem á góðviðrisdögum belgdu sig út og töluðu fjálglega um börn og ungmenni, að þau ættu skilið það besta og að við ættum að hlusta á þau.
„Svo koma erfið mál,“ sagði Jóm Pétur: „Þá sér maður undir iljarnar á sama fólki. Og þau sem enda með heitu kartöfluna kasta henni umsvifalaust frá sér, bara eitthvert annað.“
Þetta er því miður rétt lýsing. Nú er hvergi neina markvissa forystu að finna. Það er aðeins skýr pólitísk forysta sem dugar til að eyða kýli af þessum toga. Sé hún ekki sýnd hreyfir sig enginn í kerfinu. Meirihluti þings og borgarstjórnar er samstiga í því að gera ekki neitt.