16.9.2017 13:57

Of krappur dans fyrir Bjarta framtíð og Viðreisn

Þegar Björt framtíð ákvað að slíta stjórninni mátti hver maður tala mest í 90 sekúndur. Viðreisn vill reka ráðherra sem hafa beðist lausnar.

Í samfélögum þar sem allt má finna um alla með því að spyrja Google eða einhverjar aðrar leitarvélar í netheimum er greinilega vaxandi óþol fyrir því að menn fái ekki vitneskju allt sem þeir vilja strax og þeir segjast þurfa á upplýsingum að halda.

Þessi aðstaða leiðir einnig til þess að þeir sem telja sig þurfa að huga að formreglum við miðlun upplýsinga verða fljótt stimplaðir sem yfirhylmingarmenn.  Síðan er alið á samsæriskenningum og til verða aðstæður eins og leiddi til þess að hópur manna undir merkjum Bjartrar framtíðar kom saman að kvöldi fimmtudagsins 14. september og ákvað að slíta ríkisstjórnarsamstarfi með sérkennilegri aðferð. Henni er lýst í Morgunblaðinu laugardaginn 16. september.

Boðað var til óformlegs stjórnarfundar í Bjartri framtíð á heimili flokksformannsins, Óttars Proppé, við Garðastræti að kvöldi fimmtudags 14. september. Um 50 manns sóttu síðan fund á vegum Bjartrar framtíðar.  

Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, segir að eindregin afstaða hafi komið fram í máli fundarmanna. Í Morgunblaðinu segir Guðlaug:

„Fundirnir okkar eru þannig að fólk situr saman í hring og svo er gengið á hringinn og fólk talar í mínútu eða eina og hálfa. Það var gert og tók einn og hálfan tíma. Fólki fannst mikilvægt að fá skýra afstöðu stjórnarinnar fljótt og vel. Því ákváðum við í framkvæmdastjórninni, sem var öll á staðnum, að hafa rafræna kosningu. Niðurstaðan var afgerandi og 87% af þeim sem tóku afstöðu vildu slíta stjórnarsamstarfinu.

Þetta er sá háttur sem við höfum haft á við atkvæðagreiðslur. Þetta er fjölbreyttur hópur sem dreifður er úti um allt og mikilvægt að allir getið tekið þátt í atkvæðagreiðslum.“

Þessi aðferð við ákvörðun um stjórnarslit er nýmæli. Hún segir hve innra skipulag Bjartrar framtíðar er rótarlaust og þess vegna líti festa í flokknum þegar á reynir.

Benedikt_og_ttarÓttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson mynduðu bandlag við stjórnarmyndun eftir kosningar 29. október 2016. Þeir settust í ríkisstjórn saman. Flokkar þeirra kepptust við að splundra stjórninni 14. og 15. september.

Sagt er að kapphlaup hafi verið milli Bjartrar framtíðar og Viðreisnar um að slíta stjórnarsamstarfinu. Þingflokkur Viðreisnar sendi frá sér yfirlýsingu föstudaginn 15. september þar sem sagði:

„Fréttir gærdagsins af málsmeðferð um uppreist æru hafa vakið sterk viðbrögð innan raða Viðreisnar, líkt og í samfélaginu öllu.

Vinnubrögð í málum af þessu tagi verða að standast stranga skoðun þar sem ekkert er undan dregið. Það er skylda stjórnvalda gagnvart almenningi og þolendum þeirra alvarlegu glæpa sem málið varðar.

 Í ljósi stöðunnar sem nú er komin upp telur þingflokkur Viðreisnar réttast að boðað verði til kosninga hið fyrsta.“

 

Síðar þennan sama dag sendi ráðgjafaráð Viðreisnar frá sér ályktun þar sem sagði:

„Ráðgjafaráð Viðreisnar ályktar að í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu og trúnaðarbrests sem kominn er upp sé farsælast fyrir þjóðina að þing sé rofið og gengið sé til kosninga að nýju.

Vinnubrögð ráðherra Sjálfstæðisflokksins í málinu hafa ekki staðist þær kröfur sem Viðreisn gerir um vandaða starfshætti og gegnsæi. Upplýsa þarf að fullu um þá atburðarás sem leiddi til þess trúnaðarbrests sem orðinn er.

Þá telur Viðreisn einsýnt að núverandi forsætisráðherra og dómsmálaráðherra geti ekki setið áfram á ráðherrastólum á meðan á rannsókn málsins stendur auk þess sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar verði að víkja sæti.

Almannahagsmunir verða ávallt að ganga framar sérhagsmunum.“

 Þennan dag tók Viðreisn einnig ákvörðun um að Benedikt Jóhannesson, formaður flokksins, væri vanhæfur til að fjalla um það sem ráðgjafaráðið kallar „málið“ án þess að lýsa því nánar. Ályktunin er eins og hálfunnin því að gengið virðist að því sem vísu að lesandinn viti hvert „málið“ er. Það er hvergi skýrt en samt krafist að forsætisráðherra og dómsmálaráðherra víki úr embættum sínum „á meðan rannsókn málsins stendur“.

Hverjir eru „sérhagsmunir“ þegar að því kemur að rýna í „málið“? Engin skýring er á því gefin. Ráðgjafaráðið virðist hafa haft fljótaskrift á niðurstöðu sinni til að Viðreisn kæmist í kvöldfréttirnar. Krafan um afsögn forsætisráðherra og dómsmálaráðherra barst inn í fréttatíma ríkisútvarpsins kl. 18.00 föstudaginn 15. september og áttu menn erfitt með að skilja hvað um var að ræða.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fór á fund Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands kl. 11.00 laugardaginn 16. september og baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Forseti fól Bjarna að leiða starfsstjórn.

Krafa Viðreisnar um að Bjarni og Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra víki úr starfsstjórninni vegna rannsóknar á „málinu“ ber fyrst og síðast vott um þekkingar- og reynsluleysi þeirra sem ályktunina sömdu en jafnframt ríka þörf fyrir að draga að sér athygli.

Í pólitískum darraðardansi síðustu daga hefur komið í ljós að hvorki Björt framtíð né Viðreisn kunna að fóta sig á gólfinu þegar leikurinn æsist. Kjósendum er brýnt að átta sig á þeirri staðreynd.