28.10.2019 10:17

Óeðlileg skipting heilbrigðisútgjalda

„...við verjum aðeins 1,6% heilbrigðisútgjalda í forvarnir. Við erum alltaf að slökkva elda og gleymum að fyrirbyggja þessa sjúkdóma.“

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokks og formaður fjárlaganefndar alþingis, segir í Morgunblaðinu í dag (28. október) að líta þurfi til þess hvort áherslur í heilbrigðismálum séu réttar. Á næsta ári verði framlög til Landspítalans tæpir 69 milljarðar króna og 8,5 milljarðar króna fari í byggingu nýja meðferðarkjarnans. Í ár glímir spítalinn við fimm milljarða halla.

Willum Þór segir:

„Vandinn á Landspítala nú helgast m.a. af því að launakostnaðurinn hækkar stöðugt. Um árabil hefur reynst erfitt að manna spítalann með sem hagkvæmustum hætti. Þannig hafa laun hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra verið hækkuð gegn því að þeir taki á sig aukið starfshlutfall í vaktavinnu. Bara það verkefni, sem nú verður slegið af, kostar 620 milljónir króna á ári. Að auki fjölgar starfsfólki ár frá ári og oftast umfram forsendur fjárlaga. Allt skýrist þetta af því að þjóðin er að eldast, ferðamönnum að fjölga, erfiðlega gengur að útskrifa sjúklinga vegna skorts á hjúkrunarrýmum og fleira.“

Þegar þessi lýsing er lesin má vissulega velta fyrir sér hvort áherslur í heilbrigðismálum séu réttar.

IMG_9699Myndin er tekin 30. september 2019 og sýnir grunninn sem hefur verið grafinn á gömlu Hringbrautinni fyrir framan Landspítalahúsið.

Í fyrsta tölublaði Læknablaðsins árið 2019 birtist grein sem hófst á þessum orðum:

„Áætla má að yfir 80.000 landsmanna séu með hækkaðan blóðsykur sem þó hefur ekki náð greiningarviðmiðum fyrir sykursýki af tegund 2; það sem erlendis er nefnt forstig að sykursýki (pre-diabetes). Á hverju ári þróa um 5-10% þess hóps með sér sykursýki og bætast í hóp þeirra 23.000 Íslendinga sem talið er að séu með sykursýki. Stefnt er að árvekniherferð í janúar [2019] að bandarískri fyrirmynd til þess að finna þessa einstaklinga í von um grípa inn í ferlið. Tryggvi Þorgeirsson, annar stofnenda heilbrigðistæknifyrirtækisins SidekickHealth, sem sett hefur á markað lausn undir sama nafni, segir að takist að finna þessa einstaklinga megi spara heilbrigðiskerfinu mörg hundruð þúsund krónur á hvern þann sem breyti um lífsstíl. Tölurnar taki mið af mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

„86% allra dauðsfalla á Vesturlöndum og 70-80% af heilbrigðiskostnaði er vegna lífsstílstengdra langvinnra sjúkdóma,“ segir Tryggvi. „Þess vegna skýtur það svo skökku við að við verjum aðeins 1,6% heilbrigðisútgjalda í forvarnir. Við erum alltaf að slökkva elda og gleymum að fyrirbyggja þessa sjúkdóma.“

Í fyrri viku var skýrt frá því Fréttablaðinu (23. október) að fyrirtæki Tryggva, SidekickHealth, væri komið í samstarf við lyfjarisann Pfizer sem mun meðal annars fela í sér þróun á stafrænni heilbrigðismeðferð við reykingum.

Allar rannsóknir sýna að besta leiðin til að minnka útgjöld til heilbrigðismála sé að leggja áherslu á heilbrigðan lífsstíl. Þetta ætti fjárlaganefnd alþingis að setja á oddinn og velta fyrir sér hvers vegna aðeins 1,6% heilbrigðisútgjalda sé varið í forvarnir.