13.4.2019 10:42

O3-andstæðingar á undanhaldi

Einkenni umræðna á borð við þá sem nú hefur staðið mánuðum saman um þriðja orkupakkann er að þeir sem verða undir í umræðunum grípa að lokum til að minnsta kosti þriggja ráða.

Einkenni umræðna á borð við þá sem nú hefur staðið mánuðum saman um þriðja orkupakkann er að þeir sem verða undir í umræðunum grípa að lokum til að minnsta kosti þriggja ráða:

1. Að kvarta undan því að ekki hafi gefist nægilega langur tími til að ræða málið. Það á illa við í þessu tilviki því að þriðji orkupakkinn hefur verið á döfinni hjá íslenskum stjórnvöldum frá árinu 2010. Í vetur var kynnt strax sl. haust að ætlunin væri að leggja fram tillögu um málið í febrúar 2018. Ríkisstjórnin afgreiddi það frá sér 22. mars og umræðu um málið lauk á alþingi að kvöldi 9. apríl 2009. Það er nú til meðferðar í þingnefndum.

2. Að segja ráðherra og þingmenn um of stjórnast af ráðum sérfræðinga, embættismanna og lögfræðilegra álitsgjafa sem ekki hugsi um þjóðarhag; raunar megi segja sama um þingmennina, annarlegir eiginhagsmunir ráði því sem þeir segja og gera. Þetta eru nöturleg sjónarmið þar sem alið er á tortryggni í garð stjórnvalda almennt, sjónarmið sem má grípa til í hvaða tilviki sem er.

3. Að hafa málefnaleg rök að engu, þeir sem vilja halda sér við þau eru í tilviki þriðja orkupakkans sakaðir um undirgefni gagnvart ESB og valdasjúkum Brusselmönnum. Þeir meti fullveldi Íslands einskis. Ráði ekki þjónkun við Brusselvaldið eru þeir sagðir á snærum fjárfesta, innlendra og erlendra, sem vilji eignast orkufyrirtækin í landinu, leggja sæstreng og okra á þjóðinni.

Index_1555152085567Við þessum sjónarmiðum er ástæðulaust að bregðast því að þeir sem halda þeim fram taka ekki rökum.

Lögfræðilegu ráðunautarnir Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst hafa tekið til varna eftir að álit þeirra var afbakað. Í bréfi til utanríkisráðherra miðvikudaginn 10. apríl segja þeir:

„Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá. Að okkar mati skiptir sú staðreynd mestu.“

Hér að ofan hefði mátt bæta við fjórða atriðinu: beinum og óbeinum hótunum um að stjórnmálaflokkar eða einstakir stjórnmálamenn gjaldi þess á einhvern dramatískan hátt að fara ekki að vilja þeirra sem eru ósammála þeim. Slíkar hótanir eru gjarnan settar fram í nafni óskilgreinds, háværs hóps án raunverulegrar innstæðu.