5.4.2024 10:47

Nýtt VG án Katrínar

Þeir sem mæltu með samstarfi við VG undir forystu Katrínar eru fráhverfir slíku samstarfi við flokkinn undir forystu Guðmundar Inga Guðbrandssonar eða Svandísar Svavarsdóttur.

Það er einkennilegt að sjá fyrirsagnir í dag (5. apríl) eins og þessa á visir.is: Hvað gerir Katrín? Allir sem fylgjast með fréttum og hafa lesskilning vita að Katrín Jakobsdóttir er á leið í forsetaframboð.

Það er ekki nóg með að ákvarðanir um að bjóða sig fram til forseta séu orðnar að einskonar heimilisiðnaði heldur er þetta gósentíð fyrir álitsgjafa sem velta spekingslega fyrir sér hvort þessi eða hinn bjóði sig fram.

Að því er Katrínu Jakobsdóttur varðar lá það skýrt fyrir í fréttum sem birtust þriðjudaginn 2. apríl að forsætisráðherra væri á leið í forsetaframboð. Þá blasti einnig við að hún myndi hætta sem forsætisráðherra og segja af sér þingmennsku.

Nú birtast meira að segja vangaveltur um að hún geti setið áfram sem forsætisráðherra af því að það sé ekki bannað með lögum eða í stjórnarskrá. Hverjum dettur í hug að það fari saman að sitja sem forsætisráðherra og standa í forsetaframboði?

1482373Vegna viðgerða á Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu fundar ríkisstjoórnin nú húsakynnum ríkisins við Skuggasund þar sem dómsmálaráðuneytið var til húsa. Myndin er tekin í anddyri þess að morgni 5. apríl. Bíða blaðamenn í von um að Katrín tilkynni framboð sitt til forseta. (Mynd: mbl/Eggert Jóhanesson)

Rifjuð eru upp ummæli sem féllu um þetta efni árið 1996 þegar vangaveltur voru uppi um hvort þáv. forsætisráðherra Davíð Oddsson gæti setið áfram í ráðherraembætti sínu sem forsetaframbjóðandi. Til þess framboðs kom ekki og forvitnilegra í sambandi við umræðurnar þá er að íhuga hvort talið um hugsanlegt framboð Davíðs hafi haldið aftur af einhverjum og veitt Ólafi Ragnari Grímssyni forskot sem dugði honum til að ná kjöri. (Þess má geta innan sviga að Ástþór Magnússon bauð sig fyrst fram til embættis forseta Íslands í kosningunum 1996. Hann heldur því upp á 28 ára framboðsafmæli sitt núna.)

Þá er vakin athygli á þeim kosti núna að Katrín geri tillögu til forseta Íslands um eftirmann sinn í embætti forsætisráðherra og núverandi stjórn sitji áfram með nýjum ráðherra frá VG.

Nauðsynlegt er að halda því til haga í umræðum um framhaldið að í hugum margra sem töldu skynsamlegt að leysa stjórnmálalífið hér úr ákveðnum fjötrum með því að mæla með stjórnarsamstarfi milli VG og Sjálfstæðisflokksins var að Katrín Jakobsdóttir væri formaður og leiðtogi VG. Þegar hún ákveður að hverfa til annarra starfa verða pólitísk umskipti.

Þeir sem mæltu með samstarfi við VG undir forystu Katrínar eru fráhverfir slíku samstarfi við flokkinn undir forystu Guðmundar Inga Guðbrandssonar eða Svandísar Svavarsdóttur. Hún á yfir höfði sér vantraust fyrir að hafa sett reglugerð gegn hvalveiðum án þess að hafa til þess lagaheimild. Hæstiréttur segir Guðmund Inga hafa hafa skort lagaheimild fyrir friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum fyrir orkuvinnslu.

Katrín Jakobsdóttir hefur skjaldað VG í stjórnarsamstarfinu. Án hennar er um annan flokk að ræða. Þetta er kaldur pólitískur veruleiki sem breytist ekki með lögfræðilegum vangaveltum eða vísan til fortíðardæma.