20.4.2022 9:30

Nýtt bankasölukerfi boðað

Ríkisstjórnin hefur tekið skýra pólitíska forystu. Viðurkennt er að móta verður nýjan ramma um söluferli fjármálafyrirtækja.

Formenn stjórnarflokkanna, Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson sendu frá sér yfirlýsingu þriðjudaginn 19. apríl um að framkvæmd sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars 2022 hefði ekki staðið „að öllu leyti undir væntingum stjórnvalda, m.a. um gagnsæi og skýra upplýsingagjöf“. Við sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum skuli gerð rík krafa um gagnsæi, jafnræði og ítarlega upplýsingagjöf til almennings.

Þá hefðu „komið upp spurningar, álitamál og gagnrýni um framkvæmd sölunnar“. Ríkisendurskoðun hefði þegar hafið úttekt á því hvort salan samrýmdist lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Þá hefði fjármálaeftirlit Seðlabankans hafið rannsókn á tilteknum þáttum tengdum sölunni. Lýstu flokksformennirnir vilja til frekari rannsókna væri þeirra talin þörf.

Vegna annmarka „við undirbúning og framkvæmd sölu á eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum“ yrði að endurskoða „lagaumgjörð og stofnanafyrirkomulagi“. Í stað Bankasýslu ríkisins skyldi koma „nýtt fyrirkomulag til að halda utan um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum“. Lögð yrði áhersla á ríkari aðkomu alþingis og styrkari stoðir til að „tryggja gagnsæi, jafnræði, lýðræðislega aðkomu þingsins og upplýsingagjöf til almennings“.

Boðað var frumvarp um þetta efni svo fljótt sem verða mætti og ekki yrði ráðist í frekari sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka fyrr en á grundvelli nýrrar löggjafar.

1309512_1650446875805Bjarni, Katrín og Sigurður Ingi (mynd mbl.is/Eggert Jóhannesson.

Þetta er skýr stefnumörkun sem tekur á gagnrýninni sem kom fram strax eftir að Bjarni Benediktsson beitti sér fyrir því, gegn ráðum bankasýslunnar, að listi yfir kaupendurna frá 22. mars skyldi birtur. Í öllu ferlinu vegna sölunnar 22. mars hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að upplýsa þingmenn og almenning um hvert skref.

Tvær þingnefndir, fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd ræða og segja álit sitt að aðferðafræðinni. Það var gert í þessu tilviki en framkvæmd sölunnar var vart lokið þegar tvær grímur runnu á suma nefndarmenn í hópi stjórnarliða. Bentu viðbrögð þeirra til þess að enn yrði að efla samráð við þingmenn um ákvarðanir um þetta efni og er nú ætlunin að gera það.

Ólíklegt er að stjórnarandstaðan á þingi gefi mikið færi á málefnalegum umræðum um framhald þessa máls. Kynnast mátti málflutningi hennar í heiftinni sem spyrill fréttastofu ríkisútvarpsins sýndi Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í Kastljósi þriðjudaginn 19. apríl. Allar spurningarnar voru á forsendum stjórnarandstöðunnar, það er flokkspólitískar, ekki til að upplýsa heldur til að niðurlægja.

Ríkisstjórnin hefur tekið skýra pólitíska forystu. Viðurkennt er að móta verður nýjan ramma um söluferli fjármálafyrirtækja. Lögin sem sett voru að frumkvæði Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, þegar hún var fjármálaráðherra árið 2012, duga ekki lengur frekar en flest annað sem rekja má til stjórnartíðar Jóhönnu Sigurðardóttur.