Nýskipan landamæravörslu
Að Ísland segi skilið við Schengen-samstarfið á þessum forsendum verður ekki. Miklu meira er í húfi og það er í valdi íslenskra stjórnvalda að herða hér landamæravörslu.
Þegar Ísland gerðist aðili að Schengen fyrir rúmum aldarfjórðungi var ákvörðun um það grandskoðuð. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hafa reglulega heyrst raddir um að landið væri betur sett utan Schengen. Dómsmálaráðherrar hafa svarað fyrirspurnum alþingismanna og skýrslur verið samdar. Niðurstaðan hefur jafnan orðið að kostir við aðild væru meiri en ókostir – þótt Ísland sé eyja!
Í leiðara í dag (15. mars) nefnir Morgunblaðið tvo einstaklinga til sögunnar til stuðnings þeim málstað að endurskoða beri Schengen-aðildina. (1) Hjört J. Guðmundsson alþjóðastjórnmálafræðing sem bendir á að einstaklingar kunni að skrá sig undir fölsku nafni við bókun flugfars og þess vegna hafi skoðun og greining á farþegalistum við 100% skil þeirra „takmarkað gildi“. (2) Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóra á Suðurnesjum, sem segir hendingu ráða hvort brotamenn séu stöðvaðir á Keflavíkurflugvelli og innlend frumkvæðis- og greiningarvinna skipti mestu á innri landamærunum, minnst af upplýsingunum komi úr upplýsingakerfi Schengen.
Í samtali við Morgunblaðið í janúar sagði Úlfar að 10 flugfélög skiluðu ekki farþegalistum og birti blaðið nöfn flugfélaganna. Síðar kom fram að þetta væri rangt, félögin eru fjögur. Nú reiknar blaðið út í leiðara sínum að þar sé um 154.000 manns á ári að ræða af 2,2 milljónum flugfarþega og fullyrðir að í raun hafi yfirvöld ekki vitað nein deili á þessu fólki.
Um töluna má deila. Þá kann lögreglustjórinn að hafa gefið fyrirmæli um sérstaka gæslu við komu þessara véla. Í neyð hefur hann heimild til að kæra flugfélögin og beita þau dagsektum. Þá má svipta félögin lendingarleyfi.
Nú boðar Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra að samið verði um 100% skil á listum og þá er vitnað í úrtölurödd Hjartar J. Guðmundssonar.
Að Ísland segi skilið við Schengen-samstarfið á þessum forsendum verður ekki. Miklu meira er í húfi og það er í valdi íslenskra stjórnvalda að herða hér landamæravörslu. Fullyrðingar um að það sé ekki unnt vegna Schengen-aðildarinnar eru alrangar.
Úr flugstöð Leifs Eiríkssonar (mynd: mbl.is/Golli).
Skynsamlegt og brýnt skref er að færa landamæravörslu Íslands á einn stað innan lögreglunnar og fela hana embætti ríkislögreglustjóra. Héraðslögreglan á Suðurnesjum hefur nóg á sinni könnu við að tryggja öryggi heimafólks og vegna almannavarnaverkefna sem eru héraðsbundin. Nýti lögreglustjórinn ekki gagnakerfi Schengen við athuganir á vegum embættisins bendir það til skorts á alþjóðatengslum.
Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vekur athygli á því í grein í Morgunblaðinu í dag að íslensk stjórnvöld séu bundin af reglum um að frysta eigur einstaklinga, hópa, stofnana og lögaðila sem styðja Hamas hryðjuverkasamtökin og þeim sé einnig skylt að hleypa ekki stuðningsmönnum Hamas inn í landið. Af þessum sökum verði stjórnvöld að gera bakgrunnsrannsókn á öllum þeim sem sækja um hæli á Íslandi og koma frá svæðum þar sem Hamas hefur starfsemi.
Þarna er um verkefni fyrir embætti ríkislögreglustjóra að ræða en ekki héraðslögreglu. Allt kallar á tafarlausa nýskipan landamæravörslunnar.