31.7.2022 10:44

Nýr tími í varnarsamstarfi

Frá því á níunda áratug 20. aldarinnar hefur ekkert sendiherraefni Bandaríkjanna á Íslandi talað á þennan veg í utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar og raunar varla fyrir þann tíma.

Við forsetaskiptin í Bandaríkjunum í janúar 2021 hvarf þáverandi sendiherra Bandaríkjanna, Jeffrey Ross Gunter, af landi brott og úr embætti sínu. Frá þeim tíma hefur staðgengill sendiherra veitt bandaríska sendiráðinu hér forstöðu. Það var ekki fyrr en í febrúar 2022 sem Joe Biden Bandaríkjaforseti tilnefndi nýjan sendiherra á Íslandi. Forsetinn valdi hann utan embættismanna utanríkisráðuneytisins og tilnefndi flokkssystur sína fá Houston í Texas, lögfræðinginn Carrin F. Patman.

Hún ásamt fleiri sendiherraefnum kom fyrir utanríkismálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings fimmtudaginn 28. júlí, kynnti sig og hvað hún hefði til síns ágætis sem verðandi sendiherra á Íslandi og svaraði síðan spurningum þingmanna.

Í ræðu sinni sagðist Carrin F. Patman fagna því mjög að hafa verið tilnefnd til að þjóna á Íslandi. Bandaríkjamenn og Íslendingar ættu samstarf um mörg mikilvæg mál, þar mætti nefna öryggi þjóðanna beggja vegna Atlantshafs, varðstöðu um mannréttindi, baráttu gegn loftslagsbreytingum og sjálfbæra þróun á norðurslóðum (e. Arctic).

Hún nefndi fimm forgangsmál sín. Fyrir utan að tryggja vernd og öryggi bandarískra ríkisborgara hér á landi var henni efst í huga að leggja rækt við sameiginlega öryggishagsmuni þjóðanna. Lykilstaða Íslands beint á milli Norður-Ameríku og Evrópu og mitt á mikilvæga hafsvæðinu frá Grænlandi um Ísland til Bretlands (GIUK-hliðinu) skipti jafnvel meira máli núna þegar ísbráðnun leiddi til meiri skipaferða á norðurslóðum. Stjórnendur Rússlands og Alþýðulýðveldisins Kína áttuðu sig á strategísku mikilvægi Íslands, bæði efnahagslegu og hernaðarlegu. Yrði tilnefning sín staðfest sagðist Carrin F. Patman ætla að vinna að því að dýpka öryggissamstarfið við Íslendinga og styðja Íslendinga við að takast á við verkefni á þessu sviði.

1208796Öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli (mynd mbl.is).

Endursögn á ræðu Patman má lesa hér á vefsíðunni vardberg.is . Á vefsíðunni Kjarnanum segir að Bill Hagerty, öldungardeildarþingmaður repúblikana frá Tennessee og fyrrverandi sendiherra í Japan, hafi vakið máls á því að ekki stæði öllum Íslendingum, jafnvel meðal ráðamanna, á sam um aukin hernaðarleg umsvif Bandaríkjamanna á Íslandi, hverng hún ætlaði að „styrkja varnarsambandið á milli Íslands og Bandaríkjanna?“

Patman sagðist ætla að stofna til góðs samstarfs við íslenska ráðamenn minna Íslendinga á hve mikils Bandaríkjamenn mætu samstarf við þá sem „strategíska bandamenn“ í meira en 70 ár.

Þá segir á Kjarnanum að Ben Cardin, öldungadeildarþingmaður demókrata frá Maryland, hafi viljað vita hvernig Patman myndi beita sér fyrir því að varnir á norðurslóðum yrðu styrktar í ljósi framgöngu Rússa. Vísaði hún til nýlegrar ræðu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra í Washington sem sýndi Íslendinga gera sér grein fyrir ógninni frá Rússum. Íslensk stjórnvöld gerðu sér einnig grein fyrir því að hugsanlega þyrfti aukna viðveru varnarliðs á Íslandi til þess að tryggja öryggishagsmuni NATO.

Kjarninn segir einnig að Patman telji að Bandaríkjamenn hafi „verið of snöggir á sér við að loka herstöð sinni á Keflavíkurflugvelli, þar sem nú hefði komið á daginn að Kalda stríðinu væri í reynd mögulega ekki alveg lokið“.

Það sem hér segir lýsir í hnotskurn vatnaskilunum sem orðið hafa í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna vegna brottfarar Bandaríkjahers 2006 og síðan við innrás Rússa í Úkraínu.

Frá því á níunda áratug 20. aldarinnar hefur ekkert sendiherraefni Bandaríkjanna á Íslandi talað á þennan veg í utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar og raunar varla fyrir þann tíma. Frá 1951 hélt Bandaríkjastjórn hér úti varnarliði sem lagaði umsvif sín að eigin hættumati og NATO á hverjum tíma, í samvinnu við íslensk stjórnvöld með þátttöku bandaríska sendiherrans.

Nú er hættumatið á herðum íslenskra stjórnvalda með utanríkisráðherra í fararbroddi. Ný grunnstefna NATO myndar þar heildarramma. Útfærslan er hins vegar á ábyrgð Íslendinga í samvinnu við Bandaríkjastjórn á grundvelli varnarsamningsins. Það verður að laga stjórnkerfið að þessum skyldum meðal annars með því að styrkja stöðu Landhelgisgæslu Íslands innan ábyrgðarkeðjunnar og meiri sérfræðilegri þekkingu við töku ákvarðana.