Nýr þjóðhöfðingi
Halla Tómasdóttir kemur úr viðskiptasamfélaginu þar sem dagskráin er skipulögð og tímasett á allt annan hátt en hjá fræðimönnum.
Halla Tómasdóttir tók við embætti forseta Íslands í gær, 1. ágúst, við látlausa en hátíðlega athöfn. Boðskapur nýja forsetans var í anda sátta og samtals bæði í ræðu Höllu í þinghúsinu og samtali hennar í ríkissjónvarpinu. Hún vildi greinilega forðast að segja nokkuð sem vekti ágreining eða deilur. Þetta kom til dæmis fram þegar Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttamaður leitaði svara við spurningum um afstöðu nýja forsetans til alþjóðamála.
Það kemur í ljós hvernig Halla Tómasdóttir stendur að því að efla sættir og samtal í þjóðfélaginu. Guðni Th. Jóhannesson, fráfarandi forseti, boðaði við upphaf ferils síns að hann ætlaði að leggja áherslu á hreysti, heilsurækt og heilbrigði. Hann var trúr þessu markmiði sínu þrátt fyrir að heimsfaraldur setti strik í reikninginn.
Guðni Th. kom úr háskólasamfélaginu þar sem fræðimenn ráða sínum verkefnum og tíma fyrir utan kennsluskyldu. Hann hefur lýst í viðtölum að sér hafi stundum þótt nóg um þegar hann sá þéttskipaða dagskrá sína eftir að skyldur forseta kölluðu. Hann sagði einnig að nú væru aðrir tímar en áður þegar liðu dagar og jafnvel vikur án þess að fréttir bærust frá Bessastöðum.
Halla Tómasdóttir kemur úr viðskiptasamfélaginu þar sem dagskráin er skipulögð og tímasett á allt annan hátt en hjá fræðimönnum. Viðbrigðin að þessu leyti verða ef til vill ekki jafnmikil fyrir hana og hjá Guðna Th. Hann bjó á hinn bóginn yfir mikilli fræðilegri þekkingu á störfum forseta sem hlýtur að hafa skapað honum öryggi sem Höllu kann að skorta.
Forsetar Íslands í 44 ár: Ólafur Ragnar Grímssson, Vigdís Finnbogadóttir, Halla Tómasdóttir og Guðni Th. Jóhannesson.
Sérhver forseti setur sinn svip á embættið. Var sögulegt að sjá þau standa hlið við hlið í Kringlu Alþingishússins, Vigdísi Finnbogadóttur, Ólaf Ragnar Grímsson, Guðna Th. Jóhannesson og Höllu Tómasdóttur. Saman spanna þau 44 ár af 80 frá því að til embættis forseta Íslands var stofnað fyrir 80 árum.
Eftirmæli um þjóðhöfðingja Íslands eru á ýmsa lund. Í gær var hér minnst á styttuna af Kristjáni IX. sem var konungur Íslendinga frá 1863 til 1906 eða í 43 ár og lengur en nokkur annar. Hann gaf okkur stjórnarskrá og samþykkti heimastjórnina þegar Hannes Hafstein varð ráðherra 1904. Eru styttur af þeim báðum fyrir framan Stjórnarráðshúsið.
Á vefsíðu Listasafns Reykjavíkur segir um styttuna af Kristjáni IX. að það hafi verið „mörgum ráðgáta“ hvers vegna Íslendingar hafi kosið „að stilla upp styttu af Danakonungi“ á þessum stað, Kristján IX hafi „alla tíð“ sýnt sjónarmiðum Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni „lítinn áhuga“. Telur höfundur textans meginrökin „væntanlega þau að hann hafi gefið Íslendingum stjórnarskrá“. Þetta hafi hann þó ekki gert því að hann hafi ekki haft skjalið með sér þegar hann kom hingað 1874! „Því má segja að styttan sé sögufölsun,“ segir þar og einnig að styttan sé „lík öðrum styttum sem Einar gerði af karlmönnum sem höfðu áhrif á sögu landsins. Kristján konungur er settur á háan stall og er upphafin eftirlíking“.
Ólund höfundar þessa texta í garð Kristjáns IX. og Einars Jónssonar myndhöggvara leynir sér ekki. Segja má að það sé enn meiri „ráðgáta“ en tilvist konungsstyttunnar hvers vegna textahöfundurinn er svona skömmóttur.