1.2.2020 10:41

Nýr þáttur í breskri þjóðarsögu

Þessi orð lýsa afstöðu margra Breta vel: „Við höfum verið erfiðir leigjendur innan Evrópusambandsins en nú verðum við góðir grannar.“

Bretar gengu formlega úr Evrópusambandinu á miðnætti 31. janúar 2020 eftir 47 ára aðild að sambandinu. Margt spaklegt hefur verið sagt í tilefni af brottförinni. Þessi orð lýsa afstöðu margra Breta vel: „Við höfum verið erfiðir leigjendur innan sambandsins en nú verðum við góðir grannar.“

52221083_303Formlegri úrsögn úr ESB var fagnað víða í Bretlandi.

Bretar hafa alla tíð viljað skapa sér eigin stöðu innan ESB. Þeir höfnuðu aðild að evrunni og gengu ekki í Schengen svo að dæmi séu tekin. Sameiginlegi markaðurinn (e. single market) var hannaður undir forystu breskra embættismanna og hrundið í framkvæmd þegar Margaret Thatcher var forsætisráðherra. Á þeim grunni bauð ESB EFTA-ríkjunum til viðræðna og til varð evrópska efnahagssvæðið (EES) sem hefur reynst okkur Íslendingum vel í aldarfjórðung og gjörbreytt íslensku þjóðlífi.

Fræg er ræðan sem Margaret Thatcher flutti í breska þinginu 30. október 1990 þegar hún sagði: No, no, no! við tillögu frá Brussel um aukið yfirþjóðlegt vald innan ESB.

„Stjórnina aftur!“ (Take back control) var sigurslagorðið í þjóðaratkvæðagreiðslunni um ESB-aðildina í Bretlandi í júní 2016. Með orðunum var vísað til þess að andstæðingum ESB þótti nóg um Brusselvaldið, ESB hefði seilst til of mikilla ítaka í breska stjórnkerfinu og stjórnmálum.

Eftir að aðildinni var hafnað hófst langvinn barátta um málið í breska þinginu sem lauk ekki fyrr en að loknum tvennum kosningum og með þriðja íhalds forsætisráðherranum Boris Johnson sem vann glæsilegan kosningasigur 12. desember 2019 undir slagorðinu „Ljúkum Brexit!“ (Get Brexit done). Við það hefur hann nú formlega staðið. Nú hefst 11 mánaða tími til samninga um viðskiptatengsl Breta og ESB. Reynslan segir að þetta sé alltof skammur tími til að leysa flóknu málin sem bíða. Framtíðin geymir svarið um hvort markmiðið náist.

EPpIVbxXsAAI5lYNicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, birti þessa mynd með færslu á Facebook. Aðild að ESB er nú meginröksemd hennar fyrir sjálfstæði Skotlands. Hún bendir á ljósið í gluggnum eftir til hægri og segir það hafa verið skilið eftir fyrir Skota.

Einkennileg þverstæða hefur myndast í Bretlandi. Bretar eru gengnir úr ESB en Skotar vilja sjálfstæði til að geta gengið aftur í ESB. Breska stjórnin samþykkir ekki nýja þjóðaratkvæðagreiðslu í Skotlandi um sjálfstæði – án þess samþykkis verður hún ekki.

Í ræðu sem Boris Johnson forsætisráðherra flutti í tilefni úrsagnarinnar sagði hann meðal annars:

„Í kvöld skiptir mestu að árétta að hér er ekki um endalok að ræða heldur upphaf. Þetta er augnablik dagrenningar, tjaldið er dregið frá og nýr þáttur í okkar miklu þjóðarsögu hefst.“

Breska stjórnin fengi „ný völd“ til að framkvæma stefnu í samræmi við vilja breskra kjósenda. Breytingarnar mundu birtast í „stjórn útlendingamála, tilkomu fríhafna, frelsun sjávarútvegsins og gerð fríverslunarsamninga“.

Boris Johnson lét ekkert styggðaryrði falla í garð ESB heldur talaði um „vini“ og „vinsamlega samvinnu“ eftir að leiðir skildu vegna ólíkrar stefnu.