Nýr menntamálaráðherra
Nýi menntamálaráðherrann hefur tilkynnt að hans höfuðmarkmið sé að útrýma ólæsi á Íslandi. Það má því með sanni segja að byrjað sé á byrjuninni.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, tók við þungu og ábyrgðarmiklu embætti sunnudaginn 23. mars þegar hann settist í stól mennta- og barnamálaráðherra.
Hér er talað af eigin reynslu og geta menn lesið það hér á síðunni hvaða verkefnum ég sinnti á þeim tíma sem ég var menntamálaráðherra, frá 1995 til 2002.
Skömmu áður hleypti ég síðunni af stokkunum og hefur hún fylgt mér síðan, það er í rúm 30 ár. Mánudaginn 24. mars 2025 voru 932 útgefnir pistlar á síðunni, 1410 útgefnar ræður og greinar og 9085 útgefnar dagbókarfærslur.
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, flytur ávarp á alþjóðlegri ráðstefnu í Hörpu 24. mars 2025.
Það hefur því mikið verið skrifað hér og margt af því um menntamál sem nú eru því miður í mikilli óvissu og jafnvel ólestri.
Frá 2018 hefur enginn vitað um hvernig staðið skuli að námsmati í grunnskólum, þá er þeirri stefnu markvisst fylgt að ekki sé miðlað upplýsingum sem auðveldi foreldrum að átta sig á gæðum skólastarfs.
Þessi leyndarhyggja um skólastarf er hættuleg í orðsins fyllstu merkingu eins og fram hefur komið í umræðum um Breiðholtsskóla.
Það er óskiljanlegt að þeir sem er annt um skólastarf og árangur í því skuli vilja sem mesta leynd um það. Til að tryggja vöxt og viðgang verður að vera unnt að benda á mælanlegan árangur og nota viðurkennda kvarða við mælingarnar. Það er sérkennilegt ef hér er varið fjármunum og starfskröftum til að finna upp eitthvert séríslenskt kerfi til að mæla og kynna árangur í skólastarfi og það skuli hafa verið unnið að verkefninu án niðurstöðu í sjö ár.
Nýi menntamálaráðherrann hefur tilkynnt að hans höfuðmarkmið sé að útrýma ólæsi á Íslandi. Það má því með sanni segja að byrjað sé á byrjuninni.
Fyrsta embættisverk hans var að flytja setningarávarp á ensku á alþjóðlegri menntaráðstefnu í Hörpu. Hefur töluvert verið skrifað og skrafað um hvernig flutningur ávarpsins tókst en augljóst er öllum að ráðherrann hafði ekki tök á að semja það á þeim skamma tíma sem leið frá því að hann fékk ráðherralyklana þar til hann stóð í ræðustólnum.
Við framboð til alþingis eða til setu í ráðherraembætti eru ekki gerðar neinar kröfur um menntun eða kunnáttu í tungumálum. Séu viðfangsefni þess eðlis að tungumálakunnátta sé nauðsynleg er leyst úr þeim vanda með sérfræðilegri aðstoð og skýringum svo að ráðherra geti tekið upplýsta ákvörðun.
Menntamálaráðuneytið er gjörbreytt frá því að ég starfaði þar. Er undarlegt hve það hefur verið brotið upp í margar einingar. Ábyrgðin hefur á hinn bóginn ekki minnkað á ráðherrann. Hún er hins vegar gildishlaðnari eftir að hann ber einnig embættisheitið barnamálaráðherra.
Gildishlaðin embættisheiti geta sjálf íþyngt þeim sem þau bera. Mannréttindaráðherra eða jafnréttisráðherra eru dæmi um slík heiti.
Ég óska nýjum mennta- og barnamálaráðherra velfarnaðar í mikilvægum störfum. Hann er eins og forveri hans handvalinn í embættið af Ingu Sæland án þess að styðjast við sama félagslega stuðningskerfi og þeir sem koma úr stjórnmálaflokkum með lýðræðislegt, skipulagsbundið bakland.