21.6.2018 17:21

Nýjar NATO-höfuðstöðvar heimsóttar

Aðkoman að NATO-byggingunni er allt önnur en áður var. Mikið autt rými er í kringum húsið og öryggisráðstafanir miklar. Þetta eru nokkrar braggalaga, sex hæða stál- og glerbyggingar.

Að loknum fundarhöldum í miðborg Brussel fram eftir degi var ekið með fundarmenn í nýjar höfuðstöðvar NATO í borgarhlutanum Evere, við breiðgötuna sem kennd er við Leopold. Við hana voru höfuðstöðvarnar settar niður til bráðabirgða fyrir hálfri öld þegar Charles de Gaulle Frakklandsforseti sagði Frakka frá þátttöku í herstjórnum NATO og rak bandalagið frá París. Belgíski flugherinn átti þarna byggingar sem skyldu nýttar þar til reist hefði verið nýtt hús yfir höfuðstöðvarnar. Það hefur verið gert núna handan breiðgötunnar. Þegar ég dvaldist hér í Brussel í nokkra mánuði fyrir 50 árum tók ég gjarnan strætó nr. 65 út til NATO. Að lokinni kynningunni í dag tók ég hann niður í miðborginna – þeir hringla ekkert með leiðakerfið hér.

File-11_1529601189075Hér sést hluti nýrra höfuðstöðva NATO eins og þær blasa við frá aðalinngangi  á svæðið.

Aðkoman að NATO-byggingunni er allt önnur en áður var. Mikið autt rými er í kringum húsið og öryggisráðstafanir miklar. Þetta eru nokkrar braggalaga, sex hæða stál- og glerbyggingar. Rýmið er miklu opnara en áður. Í yfirgefnu húsunum þurftu menn að ganga langar leiðir eftir göngum í lágreistum skúrbyggingum. Nú ferðast þeir líklega meira í lyftum en mikið sameiginlegt rými, Agora, tengir byggingarnar.

File-12_1529601527007Þetta er aðalsalurinn sem verður notaður fyrir blaðamannafundi á vegum NATO.

Okkur var boðið í rýmið sem ætlað er blaðamönnum og gestum í kynningarferðum. Við fórum því ekki inn á svæðið sem ætlað er starfsmönnum og þeim sem sækja trúnaðarfundi. Fullyrt var að við værum fyrsti hópurinn sem fengi boð um að koma í bygginguna og greinilegt var að tæknimenn glímdu við stillingar á hljóðnemum og öðru slíku.

Þetta verður vonandi allt komið í lag eftir þrjár vikur. Þá verður ríkisoddvitafundur NATO haldinn þarna í fyrsta sinn. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sækja hann fyrir Íslands hönd.