Nýja-Samfylkingin forðast fortíðina
Skipuleg aðför að lykilstofnunum: Samfylkingarmenn vilja loka Borgarskjalasafni og svipta Ríkisendurskoðun sjálfstæði.
Virðing fyrir lykilstofnunum. hvers samfélags jafngildir virðingu fyrir lögmæltum stjórnarháttum og þar með trausti borgaranna í garð þess sem fer með opinbert vald.
Meðal lykilstofnana eru þær sem hafa á höndum eftirlit með ráðstöfun á opinberu fé eða varðveislu opinberra skjala.
Um þessar mundir vega forystumenn Samfylkingarinnar að tveimur slíkum stofnunum: Dagur B. Eggertsson borgarstjóri með lokun Borgarskjalasafns og Jóhann Páll Jóhannsson alþingismaður með aðför að sjálfstæði Ríkisendurskoðunar í ræðustól á alþingi.
Fyrir liggur að í tíð Dags B. sem borgarstjóra hefur allri virðingu fyrir skjalavörslu hnignað. Þetta kom til dæmis skýrt fram þegar rætt var um fjármálasukkið vegna braggans í Nauthólsvík. Þá bentu starfsmenn Borgarskjalasafns á að þess hefði ekki verið gætt að skrá skjöl samkvæmt lögum auk þess sem tölvusamskipti varðandi málið voru skipulega afmáð. Þá snerist sviðsstjóri innan borgarkerfisins, yfirstjórnandi Borgarskjalasafns, gegn safninu til stuðnings borgarstjóra og nú standa þeir saman að því að loka safninu!
Þetta er nýja flokksmerki Samfylkingarinnar. Spurning hefur vaknað um hvort það eigi að sýna borgarlínuna.
Á sínum tíma var ekki úthlutað einni lóð undir bensínstöð í Reykjavík án þess að tvær aðrar væru á sömu spýtu, Shell, Esso og BP voru hnýtt saman. Mörgum árum síðar varð verðsamráð milli olíufélaganna til þess að borgarstjóri í skjóli Samfylkingarinnar neyddist til að segja af sér. Varðveitt tölvubréf réðu þar úrslitum.
Nú fer Dagur B. borgarstjóri með það sem mannsmorð hvað arftakar olíufélaganna fá fyrir þær lóðir sem úthlutað var á þennan hátt á sínum tíma. Heilbrigð skynsemi segir að þeim skuli einfaldlega skila eftir að hafa þjónað hlutverki sínu til bensínsölu. Leyndarhyggjan er svo mikil í kringum braskið með bensínlóðirnar að borgarfulltrúar þurfa að fá sérstakt leyfi og fara í trúnaðarherbergi til að fletta skjölum sem tengjast ákvörðunum borgarstjóra.
Á meðan Samfylkingin stjórnar þessu pukri sunnan Vonarstrætis og gengur enn lengra með því að loka Borgarskjalasafni stendur fulltrúi Samfylkingar norðan Vonarstrætis og grefur undan trausti í garð Ríkisendurskoðunar í von um að koma höggi á forseta alþingis sem á engan hlut að ákvörðunum ríkisendurskoðanda um meðferð skjala stofnunar hans.
Áformin um að loka Borgarskjalasafni eru óskiljanleg þegar litið er til stöðu sveitarfélaga og fullveldi þeirra gagnvart ríkisvaldinu. Fyrir utan skemmdarfýsnina sem birtist í áformunum.
Lilja D. Alfreðsdóttir er menningarmálaráðherra og ber sem slíkri að standa vörð um lögmælt hlutverk safna. Flokksmenn hennar, framsóknarmenn, standa að baki borgarstjóra í aðför hans að Borgarskjalasafni. Sumt af því sem ráðherrann hefur sagt eftir að tillaga borgarstjóra var samþykkt með atkvæði framsóknar í borgarráði má skilja sem daður Lilju D. við hugmynd borgarstjórans. Hvert er umboð hennar í því efni? Ber hún framsóknarkápuna á báðum öxlum?