9.8.2020 12:15

Ný strategía gegn veirunni

Það dregur athygli frá raunverulegu hættunni að stofna til deilna um komu útlendinga til landsins. Með þeim er ekki spornað gegn heimagerðu hópsmiti.

Christian Drosten, heimskunnur veirufræðingur við Charité-sjúkrahúsið í Berlín, segir í grein í þýska vikublaðinu Die Zeit, að nú eigi Þjóðverjar að einbeita sér að því í baráttu við kórónaveiruna að takast á við smithópa, finna þá sem eru smitberar og læra af Japönum. Hann segir að meiru skipti að einangra smithópa en að taka sýni af öllum.

Greinin hefur vakið mikla athygli í Þýskalandi og víðar. Drosten segir að útbreiðsla veirunnar hafi breyst í Þýskalandi frá því sl. vor. Fleiri úr ólíkum hópum á ólíkum aldri verði nú fórnarlömb hennar. Hér er vitnað til þess sem segir um hana á vefsíðunni The Local - Germany.

„Til þessa hefur verið unnt að rekja flestar smitleiðir en brátt kunna ný tilfelli að birtast samtímis alls staðar, í öllum landshlutum. í öllum aldurshópum,“ segir hann.

Vilji menn halda veirunni í skefjum þar til bóluefni sé fyrir hendi leggur Drosten til að litið sé til Japana. Þar var ekki gripið til samfélagslokunar vegna fyrstu bylgju veirunnar þrátt fyrir mikið innflutt smit.

75b44a23420868f6c32b48ec32813599e4b31f669df3796c2aeb09090fd235b2Þarna eru grímur auglýstar í Þýskalandi. Helsti veirufræðingur landsins hvetur til þess að strategíunni gegn veirunni verði breytt.

Í Þýskalandi hafi menn gripið til víðtækrar sýnatöku í því skyni að rekja hverja smitleið. Í Japan hafi menn hins vegar treyst á grímur fyrir utan að finna og einangra smithópa. Í stað þess að útrýma hættunni á smiti sé lögð áhersla á að stöðva útbreiðslu sjúkdómsins til að halda fjölda sjúkra í lágmarki.

Athygli vísindamanna beinist þess vegna að aðstæðum sem séu gróðrarstía fyrir veiruna. Þar megi til dæmis nefna sláturhús eða skrifstofur í opnum rýmum, einnig fjölskylduboð, kirkjulegar athafnir, íþrótta- og æfingasali, bari og næturklúbba.

Drosten segir að til að sporna gegn slíkri hópmyndun hafi Japanir samið lista yfir dæmigerð mannamót sem ýti undi hópsmit og birt hann opinberlega. Finnist smit beinist athygli yfirvalda að slíkum mótum við leit að uppruna smitsins.

Í Þýskalandi mundu yfirvöld, kæmi til ofurálags á heilbrigðiskerfið, aðeins gefa fyrirmæli um aðgerðir fyrir þá sem mælast jákvæðir séu þeir hugsanlega í einhverjum hópi. Með þessari aðferð myndi kerfið ekki bugast. „Þegar til alls er litið er ljóst að veiran hverfur ekki með sýnatöku, það verður að sinna þeim sem mælast jákvæðir, “segir hann.

Drosten segir að tillaga um breytta strategíu skýrist þegar litið sé til þess hve veiran dreifist á ólíkan hátt: sumir smiti aðeins einn annan, aðrir – svonefndir ofursmitberar – smiti 10 manns eða fleiri.

Einstaklingar valdi ekki veldisvexti sýkilsins en hópur með mörgum smitberum kunni að opna margar nýjar smitleiðir. Drosten leggur þess vegna til að sérhver Þjóðverji haldi „tengsla dagbók“ svo að unnt sé finna hugsanlega hópa eins fljótt og verða má og án sýnatöku.

Drosten leggur til að þýsk yfirvöld birti nú nýjar starfsreglur fyrir heilbrigðisstarfsmenn sem takið mið af því að munur sé á fyrstu og annarri veirubylgjunni. Fyrst hafi veiran komið til landsins að utan en nú dreifist hún frá landsmönnum sjálfum. Við þessari nýju staðreynd verði að bregðast.

Þegar rýnt er í þennan boðskap í ljósi þróunar hér á landi og viðbragða yfirvalda, sést að orðið hópsmit setur æ meiri svip á umræðurnar og einnig hvatning um að nota grímur þá vega varnarorð gegn hættunni af hópmyndun mun þyngra en áður. Þunginn er þó ekki nægur megi marka fréttir af næturlífi í Reykjavík.

Það dregur athygli frá raunverulegu hættunni að stofna til deilna um komu útlendinga til landsins. Með þeim er ekki spornað gegn heimagerðu hópsmiti.