21.12.2024 10:32

Ný ríkisstjórn mynduð

Talsmenn Viðreisnar hrópa að þeir séu að mynda „frjálslynda miðjustjórn“ og Samfylkingin sé í raun miðflokkur. Við kynnumst kannski dæmigerðu vinstra miðjumoði við lestur stjórnarsáttmálans síðar í dag?

Boðaður hefur verið blaðamannafundur klukkan 13.00 í dag (21. des.) þar sem Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins kynna nýja ríkisstjórn undir forsæti Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar.

Fundir þingflokka verðandi stjórnarflokka hófust klukkan 09:00. Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar var boðaður í Tjarnarbíói klukkan 10:00 og ráðgjafaráðsfundur Viðreisnar klukkan 10.30. Flokkur fólksins boðar enga almenna flokksmenn eða fulltrúa þeirra til fundar enda er skipulag flokksins einfalt, þar ræður stofnandi hans, Inga Sæland, lögum og lofum. Hér var flokknum á dögunum líkt við kennitölu enda hefur aðeins verið efnt til tveggja landsfunda í nafni hans, árin 2018 og 2019.

Í tilefni af stjórnarmynduninni tína álitsgjafar gjarnan til einhverja fróðleiksmola sem eru efni í Trivial Pursuit-borðspilið þar sem leikmenn svara spurningum um almenna þekkingu og dægurmenningu. Ýmislegt slíkt smálegt má nefna í tengslum við þessa stjórnarmyndun, bregði menn á þann leik.

Stóra málið er hins vegar að á sama tíma og hægrivindar leika víða eins og á kjördag hér 30. nóvember setjast þrír flokksformenn niður í Reykjavík og mynda gamaldags vinstri stjórn.

Screenshot-2024-12-21-at-10.30.54François Bayrou, forsætisráðherra Frakkalnds (skjámynd).

Þetta minnir dálítið á það sem gerist núna í stjórnarkreppunni í Frakklandi þar sem stuðningsmenn Emmanuels Macrons á franska þinginu ná varla upp í nefið á sér fyrir að hann valdi gamla miðjumanninn François Bayrou í embætti forsætisráðherra. Hann er dæmigerður landsbyggðarþingmaður og jafnframt bæjarstjóri í Pau og fór þangað á bæjarstjórnarfund mánudaginn 16. desember í staðinn fyrir að fljúga til frönsku Kyrrahafseyjunnar Mayotte og leggja þeim lið sem vinna að björgun byggðar þar eftir hamfarir af völdum hvirfilbyls.

Fyrir nokkrum árum var ákveðið með samkomulagi frönsku stjórnmálaflokkanna að stjórnmálamenn ættu ekki að sitja í bæjar- eða sveitarstjórnum samhliða setu á þingi eða í ríkisstjórn. Baryou blæs á slíka verkaskiptingu og segir að þeir sem vinni að stjórnmálum verði að hafa tengsl við grasrótina á landsbyggðinni, hann geri það sem bæjarstjóri.

Á það var bent hér að á árunum 1940 til 1942 hefðu orðið skil milli Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins (ASÍ). Það hæfði ekki að ASÍ væri á kafi í flokkapólitíkinni. Við myndun stjórnarinnar sem kynnt verður í dag hefði verið horfið til baka með því að útvista gerð stjórnarsáttmálans til starfsmanna ASÍ.

Vegna þessara orða fagnaði einn af forystumönnum Samfylkingarinnar í Reykjavík því sérstaklega að þannig hefði verið staðið að því að semja stjórnarsáttmálann. Það hefði lengi verið baráttumál sitt að Samfylkingin og ASÍ rugluðu saman reitum.

Því skýrari sem vinstri svipur ríkisstjórnarinnar verður þeim mun hærra hrópa talsmenn Viðreisnar að þeir séu að mynda „frjálslynda miðjustjórn“ og Samfylkingin sé í raun miðflokkur. Við kynnumst kannski dæmigerðu vinstra miðjumoði við lestur stjórnarsáttmálans síðar í dag?