10.5.2020 9:58

Nútíminn hófst með hernámi

Mikill og djúpur skilningur þjóðarinnar á því sem gerðist á þessum árum auðveldar henni að átta sig á stöðu sinni í heiminum.

Söguleg þáttaskil urðu þennan dag fyrir 80 árum þegar breski herinn gekk hér á land. Hernámið var forvörn af hálfu Breta. Þeir vildu hindra að Þjóðverjar tækju Ísland eins og Danmörku og Noreg.

Í fyrradag, 8. maí, var þess minnst að 75 ár voru liðin frá skilyrðislausri uppgjöf Þjóðverja. Á stríðsárunum fimm tók Ísland stakkaskiptum.

Návígið við erlendu hermennina sem hingað komu, verkefnin sem þeir tóku sér fyrir hendur, lagning flugbrauta í Reykjavík og á Miðnesheiði, vinnubrögðin, krafan um sjálfstæðar ákvarðanir í utanríkismálum, ríkisstjóri í stað konungs, lok sambandslagasáttmálans frá 1918 og stofnun lýðveldis 17. júní í 1944, allt eru þetta stórviðburðir í Íslandssögunni. Þarna var lagður grunnur að stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Eftir að sannreynt þótti að ekkert yrði úr varnarsamstarfi Norðurlandanna, sem hefði í raun ekki gagnast Íslandi, ákváðu íslensk stjórnvöld að gerast stofnaðilar að Norður-Atlantshafsbandalaginu (NATO) 4. apríl 1949.

810705Breskir hermenn ganga fylktu liði á Suðurgötu í Reykjavík.

Mikill og djúpur skilningur þjóðarinnar á því sem gerðist á þessum árum auðveldar henni að átta sig á stöðu sinni í heiminum. Ísland er tengiliður á meginöxli frjálslynds lýðræðis í heiminum, Norður-Atlantshafinu. Beggja vegna hafsins eru forysturíki Vestursins. Ríkin sem lögðu grunn að núverandi heimsmynd strax að styrjöldinni lokinni.

Lýðveldið Ísland var þar þar þátttakandi allt frá upphafi því að í byrjun júlí 1944 tók íslensk sendinefnd þátt í fundunum í Bretton Woods í New Hampshire í Bandaríkjunum þar sem til dæmis var lagður grunnur að Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Það er dapurlegt að Donald Trump, núverandi forseti Bandaríkjanna, skuli líta á það sem kjarna America first-stefnu sinnar að draga lappirnar í alþjóðastofnununum sem urðu til eftir stríðið. Forsetann skortir skilning á því að með því að Bandaríkjastjórn beitti sér fyrir Marshall-aðstoðinni varð America first í öllum skilningi en ekki aðeins til að forsetinn hæfi sig á stall gagnvart kjósendum sínum.

Hvarvetna hafa atburðir tengdir tímamótum vegna síðari heimsstyrjaldarinnar sett sterkan svip á sjónvarpsdagskrár. Þar hafa stjórnendur metnað til að fræða og upplýsa fyrir utan að minnast tímamóta í eigin sögu.

Engin merki um sambærilegan metnað sjást í íslenska ríkissjónvarpinu. Almennt skortir auk þess skipulagt átak til að skapa árunum fimm frá 10. maí 1940 til 8. maí 1945 verðugan sess í Íslandssögunni.

Ef íslenska ríkissjónvarpið kynnti sögu Íslands af jafnmiklum þrótti og þar er lýst Eurovisjon-keppni sem aldrei fór fram stæði það undir eðlilegum kröfum. Óttar Guðmundsson segir í Bakþönkum í Fréttablaðinu laugardaginn 9. maí:

„Vonandi verður framhald á þessari stefnu og RÚV fjalli um fleiri ekki-viðburði. Það hefur góð áhrif á þjóðarsálina þegar Ísland sigrar í hverri ekki-keppninni á fætur annarri. Allir græða. Ekki-keppni er mun ódýrari og fyrirhafnarminni en raunveruleg keppni. Í heimi sýndarveruleikans er allt hægt.“