Nútímalög um lagareldi
Að óreyndu hefði mátt ætla að þingmenn nýju Samfylkingarinnar og Viðreisnar, flokkanna sem telja sig fulltrúa nútímans í íslensku samfélagi snerust á sveif með nýjum lögum um lagareldi.
Heift Bjargar Evu Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar, í garð frumvarps um lagareldi sem unnið var í tíð Svandísar Svavarsdóttur (VG) sem matvælaráðherra og lagt fram á þingi af Katrínu Jakobsdóttur (VG) í veikindaleyfi Svandísar, kemur á óvart í ljósi þess að Björg Eva var áður framkvæmdastjóri VG og á þeim tíma sem lagður var grunnur að frumvarpinu.
Þriðjudaginn 23. apríl mælti arftaki Svandísar sem matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (VG), fyrir frumvarpinu um lagareldi á alþingi. Í ræðu sinni sagði hún frumvarpið löngu tímabært, breytingarnar væru „farsælar fyrir náttúruvernd, dýravelferð og þróun lagareldis á Íslandi“. Alþingi hefði ákv eðið árið 2019 að lög um fiskeldi skyldu endurskoðuð eigi síðar en 1. maí 2024.
Að ósk matvælaráðuneytisins vann ríkisendurskoðun úttekt sem birtist í janúar 2023. Þar fengu ráðuneyti og stofnanir mikilvægar ábendingar varðandi núverandi framkvæmd. „Ljóst var að mikið verk væri að vinna við að þróa lagaramma og stjórnsýslu sjókvíaeldis til samræmis við umfang og vöxt greinarinnar,“ sagði Bjarkey og vísaði einnig í valkostagreiningu alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins Boston Consulting Group á framtíðarmöguleikum Íslands á sviði lagareldis. Í niðurstöðunum kom fram að gríðarleg tækifæri fælust í uppbyggingu lagareldis hér á landi. Til þess yrði að styrkja lagalega umgjörð og stjórnsýslu verulega frá því sem nú væri.
Á heimleið frá fundum í Færeyjum fyrir tveimur árum hitti ég á flugvellinum í Vágar Svandísi matvælaráðherra og vinnuhóp úr matvælaráðuneytinu sem kynnti sér fiskeldi Færeyinga sem náð hafa heimsforystu vegna hágæðaframleiðslu. Af samtölum mátti ráða að færeysk laga- og regluumgjörð ætti ríkan þátt í þessari forystu og við stæðum þar langt að baki.
Bjarkey Olsen og Svandís Svavarsdóttir í matvælaráðuneytinu (mynd mbl.is/Eggert Jóhannesson).
Á undanförnum tveimur árum hefur matvælaráðuneytið unnið að nýjum starfsramma um lagareldi sem er yfirheiti yfir sjókvía-, land-, þörunga- og úthafseldi.
Að óreyndu hefði mátt ætla að þingmenn nýju Samfylkingarinnar og Viðreisnar, flokkanna sem telja sig fulltrúa nútímans í íslensku samfélagi og vilja að næsta skref landsmanna inn í framtíðina verði innan ESB, snerust á sveif með nýjum lögum um lagareldi. Svo er þó ekki. Þeir skipa sér við hlið Landverndar og hrópa jafnvel hærra en hún um hættuna af erlendri fjárfestingu í þessari atvinnugrein.
Bjarkey Olsen sagði við Hönnu Katrínu Friðriksson, þingmann Viðreisnar: „Íslenskir firðir eru sameign þjóðarinnar, háttvirtur þingmaður, og það er ekki verið að afhenda norskum auðmönnum eitt eða neitt.“
Með því að boða aðild að ESB vill Hanna Katrín gangast undir sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB og þá sameign á sjávarauðlindum sem í henni felst samhliða því sem ákvörðunarvald um nýtingu færist til Brussel.
Staða Noregs og Færeyja utan ESB hefur auðveldað þessum nágrannaþjóðum okkar að skapa sér forystu við framleiðslu á hágæðavöru með lagareldi. Það er holur hljómur í gagnrýni ESB-flokkanna á alþingi á frumvarpið um lagareldi. Samleið þeirra með aðgerðasinnum Landverndar styrkir ekki málstað þeirra.