25.11.2020 8:18

Knopf lét ekki Hoover stjórna sér

Þarna er vikið að því kjarnaatriði í orðaskiptum mínum við dr. Ólínu. Það liggur ekkert fyrir um að faðir minn eða önnur íslensk yfirvöld hafi beitt sér gegn útgáfu bóka Laxness í Bandaríkjunum.

Halldór Guðmundsson, einn þeirra sem skrifað hefur ævisögu Halldórs Laxness, ritar grein í Morgunblaðið í dag (25. nóvember) í tilefni að því sem dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir blés upp í bók sinni, að faðir minn, Bjarni Benediktsson, hefði lagt stein í götu útgáfu bóka Halldórs Laxness í Bandaríkjunum með fyrirspurn um höfundargreiðslur til hans á miklum átakatímum kommúnista og lýðræðissinna hér á landi, þegar Halldór tók eindregna afstöðu með kommúnistum og studdi þá fjárhagslega. Bar faðir minn spurninguna upp við sendifulltrúa Bandaríkjanna á Íslandi. Gjaldeyrismáli á hendur Laxness lyktaði með því að hann var sektaður. Nú á tímum peningaþvættis og Panamaskjala sætu yfirvöld undir þungu ámæli leituðu þau ekki af sér allan grun í slíkum málum, hvað sem allri pólitík líður.

Eðlilegt er að þetta mál sé skoðað í pólitísku ljósi þess tíma og geri ég alls enga athugasemd við það, annað eins hefur nú gerst. Hinu mótmæli ég harðlega að fyrir liggi að faðir minn hafi beitt sér gegn útgáfu bóka Laxness í Bandaríkjunum. Ekkert liggur fyrir um það, allar ályktanir í þá veru stangast á við vitneskju sem ég hef meðal annars af samtölum við Laxness og það sem hann segir sjálfur í bókinni Skáldatíma þar sem hann rekur meðal annars útgáfusögu sína í lok fimmta áratugarins og hefur eftir talsmanni Bonniers-forlagsins, útgefanda síns í Svíþjóð: „Alt sem íslenskt er, jafnvel eitt saman nafn Íslands, vekur hroll hjá sænskum almenningi.“

Í Morgunblaðs-grein sinni í dag gerir Halldór grein fyrir heimildum sínum og skattrannsókninni á Laxness í Bandaríkjunum. Síðan spyr hann: „En hafði það áhrif á útgáfu bóka hans [Laxness] í Bandaríkjunum? Um það er ekkert að finna í þeim heimildum sem hér hafa verið nefndar og hverjum frjálst að draga sínar ályktanir. En þá má hafa þetta í huga: Alfred Knopf var virtur, borgaralegur útgefandi. Fyrirspurnir bandarískra yfirvalda um þær tekjur sem „íslenskur kommúnisti“ hafi haft hjá forlagi hans fóru að sjálfsögðu ekki framhjá honum og eftir þetta gaf hann ekki út nein verk eftir Halldór Laxness. “

Þarna er vikið að því kjarnaatriði í orðaskiptum mínum við dr. Ólínu. Það liggur ekkert fyrir um að faðir minn eða önnur íslensk yfirvöld hafi beitt sér gegn útgáfu bóka Laxness í Bandaríkjunum og það þurfti engar ábendingar héðan um að Laxness væri kommúnisti og aðdáandi Sovétríkjanna á Stalínstímanum, hann leyndi því ekki á neinn hátt.

Photograph-Alfred-A-Knopf-Carl-Van-Vechten-1935Alfred A. Knopf

Þá segir Halldór Guðmundsson: „Þegar umboðsskrifstofa Halldórs, Curtis Brown, gekk á hann, bar Knopf fyrir sig að hann hefði engan lesanda á norræn tungumál sem hann gæti treyst, sem kann að vera rétt.“

Halldór Laxness var undrandi á að Bonniers hætti að gefa sig út í Svíþjóð þrátt fyrir góða sölu á Sjálfstæðu fólki. Rök Bonniers voru skýr eins og kemur fram hér að ofan – skyldi Knopf ekki hafa verið sömu skoðunar? Að hann hafi óttast Edgar J. Hoover eða bandarísk yfirvöld í baráttu þeirra gegn kommúnistum er af og frá megi marka orð sonar Knopfs.

Á bls. 30 í The New York Times birtist 5. febrúar 1988 tveggja dálka frétt undir fyrirsögninni: F.B.I. Had File on Knopf. Þar segir:

„Two agencies of the United States Government, including the Federal Bureau of Investigation, maintained dossiers on Alfred A. Knopf, one of the country's most distinguished publishers, according to a book being published this spring.

The F.B.I. file, which began in 1936, continued for at least 40 years, according to Herbert Mitgang, author of ''Dangerous Dossiers: Exposing the Secret War Against America's Greatest Authors.'' Mr. Mitgang is a cultural correspondent of The New York Times. His book will be published by Donald I. Fine Inc. on April 14.

Several notations in the F.B.I. file mentioned that Mr. Knopf, now deceased, published books by authors who had allegedly engaged in espionage and by others whose loyalty had been questioned. The other dossier on Mr. Knopf, according to the book, was maintained by the Office of Personnel Management, for whom the F.B.I. ran a loyalty check because he was on the Advisory Board of the National Park Service.

Mr. Knopf's son, Alfred Knopf Jr., chairman of the board of Atheneum Publishers, said yesterday that he was astonished. ''He was the quintessential capitalist,'' he said of his father. ''But he published anybody he thought was worth publishing. He paid no attention to what their politics were.''

In an article in The New Yorker last October, Mr. Mitgang disclosed the longtime surveillance of such prominent American authors as Ernest Hemingway, William Faulkner and John Steinbeck, but he did not mention Mr. Knopf.“

Alfred Knopf jr., sonur þess Knopfs, sem ákvað að gefa ekki út fleiri bækur Laxness, lýsti undrun sinni yfir að FBI hefði fylgst með föður sínum og sagði: „Hann var dæmigerður kapítalisti. En hann gaf út eftir alla sem hann taldi útgáfunnar virði. Hann lét sig engu varða hvaða stjórnmálaskoðanir þeir höfðu.“

Hér geta stjórnmálaandstæðingar föður míns, mínir eða Sjálfstæðisflokksins haldið áfram að álykta um áhrif íslenskra stjórnvalda eða bandarískra á ákvarðanir Knopfs um bækur Laxness. Að hafna öllu sem segir að þeir hafi rangt fyrir sér styrkir ekki málstaðinn.

Sú ályktun Halldórs Guðmundssonar að Knopf hafi látið pólitískar skoðanir ráða afstöðu til höfunda eða afskipti stjórnvalda stangast á við þessa ótvíræðu heimild í NYT sem hann lætur ógetið.