5.3.2020 8:14

Fullveldið, Gamli sáttmáli, Icesave

Það er rangt að beina spjótum að ESB vegna Icesave-deilunnar eins og það er rangt að telja Gamla sáttmála aðeins áþján fyrir Íslendinga.

Viðar Guðjohnsen, lyfjafræðingur og sjálfstæðismaður, skrifar grein í Morgunblaðið í dag (5. mars) undir fyrirsögninni: Fullveldið og uppruninn.

„Með frelsismissinum mikla, Gamla sáttmála, hófst vegferð sem mætti oftar halda til haga og jafnvel bera saman við þróun Evrópusamstarfsins. Í dag væri Gamli sáttmáli væntanlega skreyttur með einhverslags merkjum um alþjóðasamvinnu sem almenningur mætti ekki hafa skoðun á.“

Á vísindavef Háskóla Íslands er fjallað um Gamla sáttmála sem var gerður árið 1262. Þar segir meðal annars:

„Þótt Íslendingar hafi smátt og smátt glatað sjálfstæði sínu í kjölfar Gamla sáttmála þá voru þeim tryggð ákveðin réttindi. Meðal annars var Íslendingum tryggður friður ásamt því að skipaferðir frá Noregi til landsins voru festar í lög. Landaurar voru afnumdir [...] og erfðaskuldir íslenskra manna upp gefnar í Noregi.

Með Kópavogsfundinum 1662 féll Gamli sáttmáli úr gildi. Hins vegar komst hann aftur í umræðuna árið 1838 þegar Danakonungur afsalaði sér einveldi sínu. Jón Sigurðsson var þá að berjast fyrir sjálfstæði Íslendinga og taldi Gamla sáttmála þar með vera kominn aftur í gildi og beitti honum óspart í baráttunni.“

Eins og af þessum orðum sést varð Gamli sáttmáli að sjálfstæðisvopni í baráttu Jóns Sigurðssonar á 19. öld sem leiddi að lokum til þess að þjóðin hlaut fullveldi árið 1918. Það er því tvíbent vopn að nota Gamla sáttmála sem röksemd fyrir fullveldisafsali Íslands. Hugtakið var ekki til á þeim tíma þegar sáttmálinn var gerður og setti ekki svip á sjálfstæðisbaráttuna á 19. öld.

500px-Coat_of_arms_of_Iceland.svgÍ grein sinni segir Viðar einnig:

„Meðferð Evrópusambandsins á okkur í tengslum við Icesave-deiluna er í fersku minni. Þar sigraði þó samhent og sameinuð þjóð risann.“

Íslensk stjórnvöld áttu í Icesave-deilu við Breta og Hollendinga en Þjóðverjar, öflugasta þjóðin innan ESB, samdi við íslensk stjórnvöld um Icesave-reikninga í Þýskalandi. ESB beitti Íslendinga ekki harðræði vegna Icesave heldur Bretar og Hollendingar sem nýttu sér öll tækifæri til að þröngva íslenskum stjórnvöldum til samninga, vissulega innan ESB en einnig innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og gagnvart Norðurlöndunum. Eftir að eftirlitsstofnun EFTA, ESA, tók málið upp og skaut því til EFTA-dómstólsins í krafti EES-samningsins fengu Íslendingar tækifæri til að takast á við Breta og Hollendinga á jafnréttisgrundvelli fyrir dómi og málstaður þeirra sigraði. Vegna EES-aðildarinnar fékkst lögbundin niðurstaða í Icesave-málinu Íslendingum í vil.

Það er rangt að beina spjótum að ESB vegna Icesave-deilunnar eins og það er rangt að telja Gamla sáttmála aðeins áþján fyrir Íslendinga.

Orð sem Viðar lætur falla um orkumál og landbúnað í grein sinni eru lifandi umræðuefni á vettvangi stjórnmála líðandi stundar án þess að fullveldi Íslands sé ógnað vegna þess sem þar gerist.