1.5.2019 10:47

Virki orkumarkaðurinn og stefna Tómasar Inga

Tómas Ingi taldi hér ekki um „hættulegt mál að ræða“. Þetta væri „hluti af því samkeppnislandslagi“ EES-aðildarinnar

Forysta Alþýðusambands Íslands (ASÍ) hefur snúist gegn fyrri afstöðu sinni til markaðsvæðingar innan raforkukerfisins. Hún var innleidd hér með breytingu á raforkulögunum árið 2003. Þriðji orkupakkinn sem er tilefni kúvendingar ASÍ snýr einkum að því að styrkja eftirlit með að samkeppnisreglur á orkumarkaðnum séu í heiðri hafðar.

Tómas Ingi Olrich, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var formaður utanríkismálanefndar alþingis árin 1998 til 2002. Hann fylgdist vel með framvindu mála, ekki síst orkumála. Hann benti þingmönnum meðal annars á það í þingræðu 4. maí árið 2000 að það væri kominn „virkur orkumarkaður“ innan ESB. Hann sagði lykilinn að markaðsvæðingunni hafa verið „að flutningakerfin standi samkeppnisaðilum opin“.

PowerlinesTómas Ingi taldi þetta „a.m.k. fyrst til að byrja með“ hafa „frekar litla þýðingu fyrir íslenska markaðinn því að hann er einangraður,“ sagði hann í ræðunni. Hann taldi þó „ekki loku fyrir það skotið að hér geti orðið raunhæf samkeppni um framleiðslu og sölu á raforku“. Hér mundi þó gilda sama og innan ESB að samkeppni yrði ekki nema menn hefðu jafnan aðgang að flutningakerfum. Væri yfirleitt gengið mjög tryggilega frá því á raforkumarkaði „að fyrirtækin sem annast framleiðslu og sölu á orku geti ekki einokað flutningakerfin“.

Tómas Ingi taldi hér ekki um „hættulegt mál að ræða“. Þetta væri „hluti af því samkeppnislandslagi sem verið er að leiða okkur inn í síðan við gengum í hið Evrópska efnahagssvæði sem hefur í stórum dráttum orðið okkur til góðs“.

Áhrifa orða Tómasar Inga gætti við innleiðingu fyrsta orkupakkans með raforkulögunum 65/2003. Þar er að finna samkeppnisskilyrði og markaðsreglur um framleiðslu, flutning, dreifingu og afhendingu rafmagns auk ákvæða um neytendavernd. Þegar kom að innleiðingu annars pakkans höfðu íslensk stjórnvöld staðið þannig að framkvæmd þess fyrsta að þau virkjuðu ekki undanþágur sem þau höfðu samkvæmt honum með vísan til þess að innan EES teldist Ísland „lítið og einangrað kerfi“ heldur innleiddu annan orkupakkann að fullu hér á landi og gengu auk þess lengra með lagabreytingu árið 2008 með því að fara fram á uppskiptingu dreifikerfa (flutningakerfa) með fleiri en 10.000 notendur. Markmið löggjafans þá var það sem Tómas Ingi lýsti í ræðu sinni árið 2000 að nota þennan lykil til að koma á samkeppnismarkaði fyrir raforku hér á landi.

Eina lagabreytingin sem gerð er tillaga um hér nú vegna þriðja orkupakkans er að styrkja sjálfstæði Orkustofnunar til eftirlits með flutningakerfunum og samkeppni.

Nú stendur Tómas Ingi Olrich hins vegar í þeim sporum eftir birtingu nokkurra greina í Morgunblaðinu vegna þriðja orkupakkans að hann hefur gert marklausan boðskap sinn frá árinu 2000 og allt sem í anda hans var gert.

Skýringin virðist vera andúð Tómasar Inga á ESB og þar með einnig EES-samstarfinu. Að mála skrattann á vegginn vegna þriðja orkupakkans er óþarfi. Að nota O3 til að grafa undan EES-aðildinni er skemmdarverk.