23.12.2017 14:30

Messa verndardýrlings Íslands

Það er ekki lítils virði fyrir þjóð eða land að slíkur maður sem heilagur Þorlákur skuli hafa verið tilnefndur verndardýrlingur landsins.

Þorláksmessa, kennd við Þorlák helga Þórhallsson verndardýrling Íslands (1133 – 23. desember 1193) Hann vígðist sem prestur 19 ára, menntaðist síðan í sex ár í París og Lincoln á Englandi, innleiddi á Íslandi reglu Ágústínusarkanúka í Þykkvabæjarklaustri og gerðist ábóti en var síðast biskup í Skálholti frá 1178. Hann vann að siðbót á Íslandi og reyndi að innleiða lög og venjur, sem kirkjan beitti sér fyrir í öðrum löndum. Átti hann í hörðum deilum við höfðingja landsins um völd og eignir kirkjunnar. Hann var árið 1198 tekinn í helgra manna tölu á alþingi, árið 1984 tilnefndi Jóhannes Páll páfi II. heilagan Þorlák verndardýrling Íslands.

Þorlákur helgi kemur víða við í bók Steinunnar J. Kristjánsdóttur prófessors, Leitin að klaustrunum. Hún hefur hlotið verðskuldað lof undanfarið. Af frásögninni þar má ráða að eftir heimkomu sína frá námi erlendis og að fenginni biskupsvígslu hafi Þorlákur gerst eindreginn málsvari páfadóms. Hann vildi að kirkjan færi með sín mál án íhlutunar höfðingja.

Hér sést hluti myndar af Þorláki Þórhallssyni biskupi í Skálholti, heilögum Þorláki, sem prýðir frægt altarisklæði Hóladómkirkju. Klæðið er líklega frá öðrum fjórðungi sextándu aldar, refilsaumað og mögulega saumað af  Helgu Sigurðardóttur, fylgikonu Jóns Arasonar biskups. Á klæðinu sjást hanskar Þorláks biskups sem og roðasteinar eða skrautskildir sem prýða þá en biskupshanskar voru sérstakir skrúðhanskar kaþólskra biskupa hér eins og annars staðar. (Heimild: Harpa Hreinsdóttir.) 

Þorlákur tók prestvígslu árið 1151 eftir mjög mannskæðan eldsvoða (1148) í Hítardal á Mýrum þar sem þáverandi Skálholtsbiskup, Magnús Einarsson, fórst með nokkrum hópi presta. Talið er að eldingu hafi slegið ofan í skála þar sem biskup og fjöldi gesta sat veislu.

Það er til marks um viðhorfið til Þorláks að ekki liðu nema fimm ár frá andláti hans þar til hann var tekinn í helgra manna tölu. Fljótlega eftir það fór að bera á líkneskjum af honum víða um land. Þykkvabæjarklaustur eignaðist að minnsta kosti eitt, nunnuklaustrið sem stofnað var að tilstuðlan hans í Kirkjubæ, þar sem hann var prestur, átti annað líkneski og einnig nunnurnar í Reynistaðaklaustri. Eitt af ölturum Viðeyjarklausturskirkju var helgað honum þegar við stofnun klaustursins 1226. Saga hans var skráð upp úr 1200.

Sögur af Þorláki helga lýsa að sjúkir fengu heilsu á ný, þeir sem lentu í háska voru heimtir úr helju, sjór kyrrðist í aftakaveðri, eldgos slokknuðu, vindar hægðust og týndir hlutir fundust væri heitið á hann. Steinunn rifjar upp sögu þar sem sagt er frá manni sem bjargaði bróður sínum sem hafði skorið sig á háls. Saumaði hann sárið saman og hét á Þorlák helga svo að aðeins var eftir ör til sanninda um kraftaverkamátt hans. Ungur drengur drukknaði í sýrukeri, heitið var á heilagan Þorlák og drengnum var borgið.

Það er ekki lítils virði fyrir þjóð eða land að slíkur maður skuli hafa verið tilnefndur verndardýrlingur landsins. Að leggja rækt við Þorláksmessu á vetri á þann hátt sem hér er gert enn þann dag í dag, þrátt fyrir siðaskipti og markvissa aðför að klaustrum og kaþólsku eftir þau er enn til marks um virðinguna á þessum eina dýrlingi okkar.

Líkamsleifar heilagra manna voru varðveittar í skrínum. Í Wikipediu má fræðast um Þorláksskrín. Það var smíðað nálægt árinu 1200 utan um líkamsleifar Þorláks helga. Stóð skrínið, skreytt gulli, gimsteinum og brenndu silfri, yfir háaltari í dómkirkjunni í Skálholti og var verðmætasti gripur á Íslandi. Það var borið í helgigöngum á messudögum Þorláks.

Á siðskiptatímanum lét Gissur Einarsson biskup setja skrínið afsíðis í Skálholtskirkju. Síðast er vitað af skríninu, að það var selt á uppboði í Skálholti 1802. Jón Helgason biskup bætti því við, að Gissur hefði látið „taka skrautið af skríni Þorláks og síðan eyða því. Þó voru til einhverjar leifar af því í Skálholti eftir það, og lét Brynjólfur biskup búa til nýtt skrín úr því, er geymdi skininn lærlegg úr manni. Þetta bein tók Jón biskup Vídalín 1715 og lét grafa niður í kirkjugarði.“

Þorlákur fæddist að Hlíðarenda í Fljótshlíð. Leggja má rækt við þann stað af margvíslegu tilefni eins og augljóst er.