16.3.2017 10:45

Fimmtudagur 

Í gær ræddi ég við Ólaf Guðmundsson, sérfræðing í öryggismálum umferðarinnar, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum saman með vísan til mynda sem Ólafur hafði sent mér. Satt að segja kom margt í máli Ólafs mér á óvart. Heilbrigð skynsemi virðist ekki alltaf höfð að leiðarljósi þegar hugað er að umferðarmannvirkjum, öryggi vegfarenda mætti að minnsta kosti auka víða án þess að það kosti stórfé.

Þá er engin furða þótt erlendir vegfarendur fari út í vegkantinn á ólíklegustu stöðum, engin óslitin hvít lína sýnir þeim að bannað sé að fara út í kantinn. Sjón er sögu ríkari, þáttinn má sjá hér.

Fjölmiðlafárið vegna Geert Wilders og öfgaflokks hans fyrir hollensku þingkosningarnar sem fram fóru í gær minnti á hvernig skrifað var um Pírata fyrir þingkosningarnar hér 29. október 2016. Fjölmiðlamenn töldu sér trú um að Píratar yrðu stærsti flokkur landsins að kosningum loknum af því að kannanir hefðu sýnt það – líklega yrði rödd lýðskrumara öflugust á alþingi að kosningum loknum.

Kosningarnar hér fóru ekki á þann veg, Píratar urðu í þriðja sæti en Wilders lenti í öðru sæti. Flokkur hans bætti við sig þingmönnum eins og Píratar bættu við sig þingmönnum. Enginn vill hins vegar starfa með Wilders og félögum á þingi Hollands frekar en enginn vill starfa með Birgittu og félögum á alþingi.

Í öllum löndum Evrópu eru flokkar á borð við flokk Wilders og Pírata. Þótt höfuðáherslumál þessara flokka séu ólík er ýmislegt líkt með þeim, einkum óvild í garð ráðandi afla og áróðurinn um að þjóðum vegni betur sé þeim ýtt til hliðar. Andófið gegn ráðandi öflum tengir þessa flokka við UKIP í Bretlandi og Donald Trump í Bandaríkjunum. 

Þegar til þess er litið hverjir fara verst út úr þessum umbrotum er nærtækast að líta til Samfylkingarinnar hér á landi og í Hollandi galt systurflokkur hennar, Verkamannaflokkurinn, PvdA, afhroð þingmönnum hans fækkaði úr 38 í 9. Í Hollandi bættu vinstri grænir við sig mestu fylgi, þingmönnum þeirra fjölgaði úr 4 í 14.

Mark Rutte úr VVD, mið-hægriflokknum sem kennir sig við frelsi og lýðræði, verður áfram forsætisráðherra takist honum að berja saman margflokka stjórn. Hann færði sig nær afstöðu Wilders gegn múslimum á lokadögum kosningabaráttunnar þegar Erdogan, Tyrklandsforseti sem berst fyrir íslamvæðingu Tyrklands, lamdi á honum og Hollendingum.