13.3.2017 12:15

Mánudagur

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, og Már Guðmundsson seðlabankastjóri voru á fundi með blaðamannamönnum í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í gær klukkan 14.00 og boðuðu afnám haftanna sem komu til sögunnar haustið 2008 vegna hrunsins.

 

Þetta er merkur viðburður í hagsögu Íslands sem sýnir að við sem sátum í ríkisstjórn Geirs H. Haarde þegar hrunið varð brugðumst við á réttan hátt. Eitt er að segja menn eiga að sjá atburði fyrir (sem þeir gera almennt ekki enda er framtíðin óráðin) annað að taka réttar ákvarðanir á örlagastund. Það var gert af ríkisstjórn og alþingi við hrun fjármálakerfisins.

Eftir að réttar ákvarðanir voru teknar fram að áramótum 2008/2009 fór Samfylkingin á taugum og taldi sér trú um að ekki yrði lengra haldið án aðildar að ESB. Þegar Sjálfstæðismenn féllust ekki á það sjónarmið rauf Samfylkingin stjórnarsamstarfið og myndaði minnihlutastjórn með vinstri grænum og hlutleysi Framsóknarflokksins 1. febrúar 2009. Var þá hver ranga ákvörðunin tekin eftir aðra og ekki hugað að afnámi hafta vegna þess að Samfylkingarmenn sögðu afnámið tengjast aðild að ESB en VG-menn vildu halda í höftin til að tryggja pólitísk ítök ríkisvaldsins í efnahags- og atvinnulífinu.

Stefnubreyting varð eftir kosningar 2013 þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kom til sögunnar undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hún steig skref úr höftunum en forsætisráðherrann klúðraði svo eigin málum að þingflokkur hans hafnaði honum og síðan flokkurinn allur í formannskosningum.

Eftir kosningar 29. október 2016 varð til ný stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Undir forystu hennar og forsæti Bjarna Benediktssonar hefur lokaskrefið út úr höftunum verið stigið og Íslendingar geta um frjálst höfuð strokið í viðskiptum við aðrar þjóðir með krónu sína að vopni. Fullveldið er áréttað með þessu og umskiptin verða meiri en sjá má á þessari stundu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson reynir nú að ná vopnum sínum og segir að hann hefði ekki samið við vogunarsjóði á þann hátt sem gert var í tengslum við afnám haftanna. Gefur hann sér einhverjar tölur í því sambandi en aðrir nefna aðrar tölur. Tæki hann af sér flokkspólitísku gleraugun áttaði hann sig á að hann sér ofsjónum yfir ábata vogunarsjóðanna.