5.3.2017 16:30

Sunnudagur

François Fillon sem enn er forsetaframbjóðandi Lýðveldisflokksins (mið-hægri) í Frakklandi efndi til útifundar á Trocadero-torginu í París í dag. Stuðningsmenn hans segja að 200.000 manns hafi tekið þátt í fundinum, aðrir segja fundarmenn hafa verið 40 til 50.000. Til fundarins var efnt til að styrkja stöðu frambjóðandans út á við og inn á við í Lýðveldisflokknum. Fillon viðurkenndi að sér hefðu orðið á mistök og baðst afsökunar á þeim.

 

Innan Lýðvekdisflokksins efast sífellt fleiri um réttmæti þess að Fillon berjist áfram undir merkjum hans vegna ásakana á hendur honum fyrir að misfara með starfskostnaðarfé þingmanna með því að greiða eiginkonu sinni og tveimur börnum fyrir vinnu sem aldrei hafi verið unninn. Kannanir sýna að Fillon nýtur aðeins stuðnings 17% kjósenda í fyrri umferð forsetakosninganna 23. apríl og kæmist því ekki í síðari umferðina 7. maí.

Lögregla rannsakar málið og Fillon hefur verið kallaður til yfirheyrslu miðvikudaginn 15. mars, tveimur dögum áður en framboðsfrestur rennur út. Fillon segir að þetta sé allt með ráðum gert af pólitískum andstæðingum sínum og hann láti ekki hrekja sig úr framboði á svona lúalegan hátt.

Yfirstjórn Lýðveldisflokksins kemur saman mánudaginn 6. mars til að meta stöðuna en Alain Juppé, borgarstjóri í Bordeaux, fyrrv. forsætisráðherra, er sagður til þess búinn að taka sæti Fillons sem frambjóðandi Lýðveldisflokksins sé þess talin þörf. Fillon minnti hins vegar á það á fundi sínum að það væri ekki yfirstjórnar flokksins að velja frambjóðanda hans, það val væri í höndum flokksmanna í prófkjöri.

Í Bandaríkjunum olli Donald Trump forseti enn á ný uppnámi. Nú með því að saka Barack Obama, þáv. forseta, um að láta hlera síma sinn í New York. Með þessum ásökunum, sem talsmaður Obama segir rakalausar, dreifir Trump athygli frá vandræðunum innan eigin raða vegna samtala náinna samstarfsmanna við rússneska sendiherrann í Washington.

Þessi pólitísku stórtíðindi minna á hve léttvægar deilur eiga í raun stað á stjórnmálavettvangi hér á landi. Raunar minna ásakanir Trumps á það sem gerðist hér fyrir rúmum áratug þegar Jón Baldvin Hannibalsson hafði uppi ásakanir um að sími sinn hefði verið hleraður að lögreglunni þegar hann var utanríkisráðherra og Árni Páll Árnason, sem þá starfaði í utanríkisráðuneytinu, sagði þá að sinn sími hefði einnig verið hleraður. Ríkissaksóknari lét rannsaka málið sem varð að engu.